Madsen ákærður fyrir að myrða Wall

Peter Madsen.
Peter Madsen. AFP

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen hefur verið ákærður fyrir að myrða sænska blaðamanninn Kim Wall. Madsen er ákærður fyrir að hafa orðið Wall að bana í ágúst á síðasta ári á meðan þau voru í ferð á kafbáti sem hann smíðaði.

Haft er eftir saksóknaranum Jakob Buch-Jepsen í frétt breska dagblaðsins London Evening Standard að Madsen hefði annað hvort skorið Wall á háls eða kyrkt hana að mati ákæruvaldsins. Sagði hann málið mjög sérstakt og gróft.

Madsen er einnig ákærður fyrir illa meðferð á líki og fyrir að losa sig við líkið af Wall. Madsen hefur sagt að Wall hafi látist af slysförum í kafbátnum. Áður hélt Madsen því fram að hann vissi ekki um Wall þar sem hann hefði sett hana í land.

Madsen hefur síðan einnig viðurkennt að hafa varpað líki Wall í hafið en líkamspartar hennar hafa síðan fundist í sjónum og er talið að Madsen hafi hlutað lík hennar í sundur. Réttarhöldin í málinu hefjast 8. mars og er búist við niðurstöðu 25. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert