Vill greiða sekt fyrir vitnisburð

Fyrirsætan Chrissy Teigen er tilbúin að greiða sekt fimleikakonunnar McKayla …
Fyrirsætan Chrissy Teigen er tilbúin að greiða sekt fimleikakonunnar McKayla Maroney ef hún kýs að greina frá ofbeldinu sem hún varð fyrir af hendi læknis í réttarhöldum. AFP

Fyrirsætan Chrissy Teigen hefur boðist til að greiða sekt fimleikakonunnar McKayla Maroney ef hún kjósi að bera vitni gegn Larry Nass­ar fyrr­ver­andi lækn­i banda­ríska fim­leika­landsliðsins en réttarhöld yfir honum hófust í gær. Nass­ar misnotaði Maroney líkt og um 140 stúlkubörn. NBC greinir frá. 

Árið 2016 gerði Maroney samkomulag við Bandaríska fimleikasambandið um að greina ekki opinberlega frá ofbeldinu og þiggja þess í stað bætur. Rjúfi hún samkomulagið á hún yfir höfði sér sekt upp á 100 þúsund dollara eða rúmlega 10 milljónir króna.   

Teigen greindi frá þessu á Twitter-síðunni sinni í dag. Færslunni hefur verið dreift víða og hafa margir fetað í fótspor Teigen og hafa stungið upp á því að stofna sjóð til styrktar þeim sem Nassar misnotaði einkum þær sem hafa skrifað undir samkomulag um að þegja yfir ofbeldinu. 

Maroney svaraði færslunni hennar og er djúpt snortin yfir stuðningi hennar, konu sem hún þekkir ekki neitt persónulega.

„Þú ert með hjarta úr gulli“

„Ég er ekki á samfélagsmiðlum en núna vildi ég að svo væri. Ég er hrærð yfir gjafmildi þinni. Ég vil láta þig vita að þú gefur okkur öllum mikla von. Ég er hreinlega orðlaus að þú skulir standa upp fyrir mér þrátt fyrir að þú þekkir mig ekki neitt. Þú ert ein af þeim sterku konum sem ég hef alltaf litið upp til í mörg ár. [...] Breytingar verða í heiminum vegna fólks sem er eins og þú. Þú ert með hjarta úr gulli.“ Þetta er meðal þess sem Maroney skrifar í Twitter-færslu til Teigen. 



Maroney er ein af þeim sem vann til gullverðlauna á Ólympílueikunum árið 2012. Hún lýsti þeim áhrifum sem ofbeldið hefur haft á hana í Twitter-færslu árið 2016. Hún segist meðal annars hafa komist nálægt því að svipta sig lífi vegna vanlíðunar.  

Eftir að Teigen birti færslu sína sendi Bandaríska fimleikasambandið frá sér tilkynningu þar sem McKayla líkt og aðrar stúlkur sem hafa verið beittar ofbeldi eru hvattar til að láta í sér heyra. „Sambandið hefur sett öryggi, heilsu, og líðan íþróttamanna efst á lista og vill skapa menningu sem hvetur og styður við bakið á þeim.“  

Lögfræðingur Maroney hefur greint frá því að hún hafi verið neydd til að þaga yfir ofbeldinu með samningnum. Í kjölfar #metoo-byltingarinnar hefur samkomulag þar sem greitt er fyrir þagmælsku einstaklinga verið harðlega gagnrýnt. Slíkt samkomulag tíðkast víða í Bandaríkjunum. 

McKayla Maroney hlaut gullverðlauna á Ólympíuleikunum 2012.
McKayla Maroney hlaut gullverðlauna á Ólympíuleikunum 2012. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert