Kenna „tapsárum“ demókrötum um lokunina

Repúblikanar kenna Demókrötum um lokunina, en Demókratar segja Repúblikana ekki …
Repúblikanar kenna Demókrötum um lokunina, en Demókratar segja Repúblikana ekki vilja semja um grundvallarmál. AFP

Lokun bandaríska alríkisins er demókrötum að kenna. Þetta segir í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu, en strax á miðnætti hófust ásakanir bæði repúblikana og demókrata um hver bæri ábyrgð á lokuninni. Segir í yfirlýsingu Hvíta hússins að demókratar hafi sett pólitík ofar öryggismálum, hagsmunum hermanna og barna sem búa við bág kjör.

Helsta ástæða þess að af lokuninni varð í nótt er að demókratar vildu ekki semja um framlengingu fjárlaga sem ekki tókst að setja fyrir upphaf síðasta fjárlagaárs í september. Vilja þeir að samið verði um vernd meira en 700 þúsund ólöglegra innflytjenda sem komu til Bandaríkjanna sem börn og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur afnumið vernd yfir.

Í fyrrnefndri yfirlýsingu er hins vegar sagt að demókratar haldi löghlýðnum ríkisborgurum í gíslingu vegna „kærulausra krafna.“ Skellir Hvíta húsið skuldinni á „tapsára“ demókrata sem hafi haft uppi hindrandi aðferðir í stað þess að sinna starfi sínu sem löggjafar.



Þá kemur fram að ekki verði samið undir svona hótunum og að ekki fyrr en demókratar muni leyfa alríkinu að greiða laun hermanna og viðbragðsaðila innanlands verði samningaviðræður hafnar á ný.

Þá er skuldinni aðallega skellt á Chcuk Schumer, leiðtoga demókrata í öldungadeildinni, en lokunin er kölluð „lokun Schumers“ (e. Schumer shutdown) og hefur myllumerkið #schumershutdown verið víða notað, meðal annars af upplýsingafulltrúa Hvíta hússins þegar hún deildi yfirlýsingunni á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert