Segir Suu Kyi ekki vera siðferðilegan leiðtoga

Aung San Suu Kyi, friðar­verðlauna­hafi Nó­bels og leiðtogi rík­is­stjórn­ar Búrma, …
Aung San Suu Kyi, friðar­verðlauna­hafi Nó­bels og leiðtogi rík­is­stjórn­ar Búrma, bráðst hin reiðasta við er Richardson vildi ræða við hana málefni fréttamanna sem eru í haldi í landinu. AFP

Einn nefndarmanna í alþjóðanefnd um málefni rohingja hefur sagt sig úr nefndinni þar sem hann segir Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma (Mijanmar), skorta „siðferðilega leiðtogahæfni“. Nefndarmaðurinn er bandaríski diplómatinn Bill Richardson og vinur Suu Kyi til margra ára, en nefndinni var komið á fót til af Suu Kyi til að veita ráðgjöf um rohingja-deiluna.

BBC hefur eftir Richardson að nefndinni sé ætlað að „hvítþvo“ yfirvöld og sakaði hann Suu Kyi um að skorta „siðferðilega leiðtogahæfni“. Sagði hann Suu Kyi hafa orðið „öskuilla“ er hann nefndi við hana mál tveggja fréttamanna Reuters sem bíða nú réttarhalda í Búrma. Búrmísk yfirvöld hafa nú sakað Richardson um að standa fyrir persónulegri árás á Suu Kyi.

Rúmlega 650.000 rohingjar hafa flúið frá Rakhine-héraði í Búrma til nágrannaríkisins Bangladess frá því í október 2016 vegna ofsókna í þeirra garð. Búrmíski herinn hefur staðið fyrir aðgerðum í Rakhine-héraði, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt vera „skólabókadæmi um þjóðernishreinsanir“.

Stjórnvöld í Búrma hafna hins vegar alfarið öllum slíkum ásökunum.

Richardson, sem var í hópi ráðgjafa Bill Clinton í forsetatíð hans, hefur þekkt Suu Kyi í áratugi og heimsótti hana til Búrma er herforingjastjórnin var með hana í stofufangelsi á tíunda áratug síðustu aldar.  

Sagði hann Reuters að hann segði sig úr ráðgjafanefndinni af því að hún væri ætluð til hvítþvottar og hann vildi ekki vera „klappstýra fyrir stjórnvöld“.

Kvaðst Richardson hafa rifist við Suu Kyi á fundi á mánudag, en þar nefndi hann mál fréttamanna sem ákærðir eru fyrir að hafa greint frá leynilegum upplýsingum. Voru þeir að vinna frétt um rohingja-deiluna er þeir voru handteknir. Er Suu Kyi sögð hafa tryllst þegar hann nefndi blaðamennina. „ Andlit hennar skalf og ef hún hefði staðið aðeins nær þá hefði hún mögulega slegið mig. Hún var það reið,“ sagði Richardson í samtali við New York Times.

Kvaðst hann hafa fengið áfall við að sjá hversu niðrandi orðum Suu Kyi fór um fjölmiðla, Sameinuðu þjóðirnar, mannréttindasamtök og alþjóðasamfélagið á þriggja daga fundi.  

„Ég kann mjög vel við hana og ber virðingu fyrir henni, en hún hefur ekki verið siðferðilegur leiðtogi í rohingja málinu og varðandi ásakanir því tengdar og það þykir mér miður,“ sagði Richardson. „Hún fær ekki góða ráðgjöf frá teymi sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert