Líkum skolaði á land

Sífellt fleiri freista þess að flýja sjóleiðina frá Afríku til …
Sífellt fleiri freista þess að flýja sjóleiðina frá Afríku til Evrópu. AFP

Lík sextán flóttamanna fundust við strendur spænsku hólmlendunnar Melilla í Miðjarðarhafi. Marokkóskir björgunaraðilar fundu lík þriggja kvenna og þrettán karla. Þau voru í kjölfarið flutt í líkhús í borginni Nador í Marokkó. Allt er fólkið hafa talið verið frá Afríku.

Áhöfn spænsks skips kom auga á líkin í sjónum í gær. Hún lét strandgæsluna vita, sem fór á vettvang til að kanna málið. 

Í dag hélt leit í sjónum áfram en óttast er að þar kunni að vera fleiri lík að finna. 

Það hefur færst í vöxt síðustu mánuði að flóttafólk freisti þess að komast frá Norður-Afríku til Spánar en sífellt erfiðara hefur reynst að flýja hina algengu leið frá Líbíu til Ítalíu. 

Í ár hafa því 1.279 flóttamenn komið þessa leið til Spánar. Flestir koma enn til Ítalíu eða 4.256 nú þegar í ár. 

Talið er að í það minnsta 243 hafi drukknað á flótta sínum yfir Miðjarðarhafið í ár. Sú tala hefur ekki verið uppfærð með tilliti til líkfundarins um helgina. 

Sífellt fleiri flóttamenn koma nú sjóleiðina til Evrópu eftir að lönd ríkja álfunnar lokuðu landamærum sínum m.a. með girðingum. Í fyrra komu þannig 22.900 flóttamenn sjóleiðina til Evrópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert