„Ég mæti ekki í skólann á Valentínusardegi“

Nikolas Cruz var leiddur fyrir dómara í gær. Hann hefur …
Nikolas Cruz var leiddur fyrir dómara í gær. Hann hefur játað á sig skotárásina í framhaldsskólanum í fyrradag. AFP

Nikolas Cruz, sem skaut sautján til bana í framhaldsskóla í Flórída, hafði tengsl við hvíta þjóðernissinna og hafði látið rasísk ummæli um múslima og svarta falla á samfélagsmiðlum, að því er fréttastofa CNN greinir frá.

Á yfirborðinu virtist hann rólyndismaður. Hann hafði sig ekki í frammi í skólanum en eitthvað varð þó til þess að stjórnendur framhaldsskólans hans bönnuðu honum að mæta með bakpoka í skólann og síðar var honum vikið úr námi.

En á samfélagsmiðlum var allt annað uppi á teningnum. Þar birtist Cruz sem nokkurs konar stríðsmaður og fór ekki í grafgötur með fyrirætlanir sínar. Hann hafði ítrekað gefið í skyn að hann ætlaði að framkvæma nákvæmlega það sem hann svo gerði: Skotárás í skóla.

Stúlka tekur þátt í bænastund í Parkland í Flórída þar …
Stúlka tekur þátt í bænastund í Parkland í Flórída þar sem fórnarlamba voðaverkanna var minnst. AFP

Upplýst hefur verið að alríkislögreglan hafði fengið ábendingu um Cruz vegna myndskeiðs sem hann birti á YouTube í fyrra. Lögreglunni tókst ekki að bera kennsl á hann og var ekkert frekar gert í málinu, að því er virðist nú þegar rannsókn á ferli málsins innan stofnunarinnar er að hefjast.

Í frétt CNN segir að í ljós sé komið að hann hafði tengsl við hægri öfgamenn. Þá sagðist hann ætla að skjóta fólk með AR-15-rifflinum sínum, sem hann hafði fengið leyfi yfirvalda til að festa kaup á. Beindi hann orðum sínum m.a. að lögreglumönnum og þeim sem berjast gegn fasisma. 

Cruz var ættleiddur sem barn. Foreldrarnir sem tóku hann að sér eru báðir látnir. Fjölskylduvinir tóku hann að sér og leyfðu honum að búa hjá sér. Í ítarlegri fréttaskýringu CNN um fortíð Cruz kemur fram að að morgni dagsins sem hann framdi hina hroðalegu árás hafi þessi fósturfjölskylda hans ekki tekið eftir neinu óvenjulegu í fari hans. Nema þá því að hann sagðist ekki ætla að mæta á námskeið sem hann sat  og fóstri hans var vanur að aka honum á. Lögmaður fósturfjölskyldunnar segir að Cruz hafi skýrt fjarveru sína með því að það væri Valentínusardagurinn og að hann hafi sagt: „Ég mæti ekki í skólann á Valentínusardegi.“

Flaggað í hálfa stöng við þinghúsið í Washington.
Flaggað í hálfa stöng við þinghúsið í Washington. AFP

Lögmaður fjölskyldunnar segir að vissulega hafi Cruz verið sorgmæddur, jafnvel þunglyndur, í kjölfar andláts móður sinnar í nóvember. Sonur fjölskyldunnar sem tók hann að sér er kunningi hans og á svipuðum aldri. Þeir gengu í sama framhaldskólann um tíma. „Honum virtist vera farið að líða betur,“ segir lögmaðurinn Jim Lewis.

Áður en Cruz gerði árásina hafði hann sent þessum vini og fyrrverandi skólabróður skilaboð og spurt hann hvar hann væri og hvað hann væri að gera. Ekkert grunsamlegt var við skilaboðin að mati vinarins.

Fjölskyldan vissi að Cruz ætti byssu. Hún hafði farið fram á það að byssan yrði geymd í læstum skáp. Að þeim skáp hafði Cruz lykil.

En viðvörunarbjöllur höfðu kviknað í hugum annarra um hegðun Cruz. Einn fyrrverandi bekkjarbróðir hans segir að hann hafi sýnt sér byssurnar sem hann ætti og annar segist hafa óttast að hann væri ofbeldishneigður.

Nikolas Cruz færður í fangaklefa í Broward-sýslu í gær.
Nikolas Cruz færður í fangaklefa í Broward-sýslu í gær. AFP

Lögreglustjórinn í Broward-sýslu sagði á blaðamannafundi í gær að Cruz hefði glímt við geðræn vandamál og borgarstjórinn, Beam Furr, sagði að hann hefði fengið meðferð vegna þeirra veikinda sinna. Hann hefði hins vegar ekki mætt í þá meðferð í heilt ár. 

Þeir sem þekktu Cruz segja hann vera einfara og svolítið „skrítinn“. Hann hafi gerst sekur um agabrot í skólanum og lent í slagsmálum. Hann hafði hins vegar ekki látið í ljós óánægju sína í garð kennara sinna eða skólafélaga. 

„Hann var smár vexti og það eru vísbendingar um að hann hafi eitthvað verið lagður í einelti en að sama skapi hafði hann ekki gengið í þennan skóla í meira en ár,“ segir lögmaðurinn Lewis.

Á samfélagsmiðlum sýndi Cruz á sér aðrar hliðar. Hann birti myndir af byssum, af sjálfum sér með byssur og hnífa og viðhafði rasísk ummæli.

Nikolas Cruz hafði verið rekinn frá framhaldsskólanum, sem hann gerði …
Nikolas Cruz hafði verið rekinn frá framhaldsskólanum, sem hann gerði árás á, fyrir ári. AFP

Meðal ummæla sem hann lét falla á netinu eru:

„Ég vil skjóta fólk með AR-15-rifflinum mínum.“

„Ég vil deyja í bardaga drepandi skítnóg af fólki.“

„Ég ætla að drepa lögreglumenn einn daginn...“

Skólayfirvöld í Broward-sýslu segja að Cruz hafi verið rekinn úr Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum vegna agavandamála. Hann hóf þá nám við annan skóla í sýslunni. Ekki hefur verið upplýst nákvæmlega í hverju þau vandamál fólust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert