Rannsaka tengsl við öfgahópa

Rússnesk lögreglukona. Lögregla rannsakar nú hvort að árásarmaðurinn hafi haft …
Rússnesk lögreglukona. Lögregla rannsakar nú hvort að árásarmaðurinn hafi haft tengsl við öfgahópa. AFP

Yfirvöld í Rússlandi rannsaka nú hvort byssumaðurinn sem gerði árás á kirkju í bænum Kizlyar í Dagestan í gærmorgun hafi haft tengsl við einhverja öfgahópa.

Fimm manns létust í árásinni og sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, yfirvöld nú rannsaka hvort árásarmaðurinn hafi haft tengsl við einhverja öfgahreyfingu. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á tilræðinu og segja tilræðismanninn, sem var skotinn til bana af lögreglu, hafa verið hermann íslams. 

Peskov nefndi Ríki íslams ekki á nafn, en sagði nokkur samtök til skoðunar,  „meðal annars nokkur með tengsl við alþjóðleg hryðjuverkasamtök“, sagði hann.

Rannsóknarnefndin greindi í gær frá því að árásarmaðurinn hefði verið einn af íbúum Kizlyar og að hann hefði verið á þrítugsaldri. Málið er rannsakað sem morðmál, en einnig er verið að skoða hvort um mögulega hryðjuverkaárás sé að ræða.

Forsvarsmenn rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hafa fordæmt árásina og segja hana vera hugsaða til þess að auka ágreining milli trúarhópa í Kákasusfjöllum. Stofnun múslima í Norður-Kákasus hefur einnig fordæmt árásina og segir hana hafa ekkert með íslam að gera.

Haldin var sérstök minningarathöfn um fórnarlömbin í kirkjunni í dag, en auk þess var öryggisgæsla aukin við allar kirkjur rétttrúnaðarkirkjunnar í Dagestan.

Fjórir þeirra sem slösuðust í árásinni eru enn á sjúkrahúsi, þar á meðal tvær konur sem slösuðust alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert