Telja fullvíst að Rússar beri ábyrgð

Lögreglan stendur vörð við Mill krána í Salisbury.
Lögreglan stendur vörð við Mill krána í Salisbury. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, mun sitja fund í dag með þjóðaröryggisráðinu til að ræða taugagasárás sem beindist gegn fyrrverandi njósnara og dóttur hans. Heimildir Times herma að nánast öruggt sé að Rússar standi á bak við tilræðið.

Á vef BBC kemur fram að í gær hafi allt að fimm hundruð gestum tveggja staða í Salisbury verið gert að þvo hendur sínar og fatnað vegna leifa af eiturefninu sem fundust á stöðunum. 

Feðginin, Sergei og Julia Skripal eru enn á gjörgæslu, ástand þeirra er stöðugt en alvarlegt. Lögreglumaður, Nick Bailey, sem var meðal þeirra fyrstu sem kom á vettvang þegar feðginin fundust meðvitundarlaus á bekk við verslunarmiðstöð í Salisbury fyrir rúmri viku er að ná heilsu. Hann er kominn til meðvitundar og farinn að geta tjáð sig.

Leifar af efninu sem var notað til að eitra fyrir feðginunum fannst á og við borðið sem þau borðuðu við á veitingastaðnum Zizzi 4. mars. Jafnframt fundust leifar taugagassins á kránni Mill í Salisbury en þau komu einnig þangað þann sama dag.

Í frétt Times kemur fram að samkvæmt heimildum blaðsins hafi lögregla og leyniþjónustan safnað nægum gögnum um að stjórnvöld í Moskvu tengist morðtilrauninni. 

Sky

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert