Gefa Facebook 2 vikur til að svara

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. Evrópusambandið hefur gefið forsvarmönnum Facebook tveggja …
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. Evrópusambandið hefur gefið forsvarmönnum Facebook tveggja vikna frest til að svara fyrirspurnum sambandsins. AFP

Evrópusambandið hefur gefið forsvarmönnum Facebook tveggja vikna frest til að svara fyrirspurnum sambandsins vegna hneykslismáls sem upp kom nýlega er greint var frá því að fyrirtæki hafi nýtt sér persónuupplýsingar Facebook-notenda, m.a. til að aðstoða Donald Trump við að ná kjöri sem Bandaríkjaforseti.

Í bréfinu, sem dómsmálaráðherra Evrópusambandsins Vera Jourova sendi, er m.a. spurt hvaða skref fyrirtækið ætli að taka til að koma í veg fyrir sambærileg hneykslismál í framtíðinni. Þá var einnig spurt hvort að persónuupplýsingar Facebook-notenda innan Evrópusambandsins hefðu verið nýttar með þessum hætti og að ef svo væri  hvernig Facebook hefði þá hugsað sér að gera yfirvöldum í viðkomandi ríki, sem og notandanum sjálfum, grein fyrir því.

Breskir þingmenn ítrekuðu í dag þá kröfu sína að Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, komi til yfirheyrslu hjá þinginu vegna málsins, eftir að Zuckerberg svaraði fyrri beiðni með því að bjóðast til að senda einn fulltrúa sinna.

Ant­onio Taj­ani, forseti Evrópuþingsins, hefur einnig boðið Zuckerberg að ræða við Evrópuþingið um áhyggjur þess af málinu, en misnotkun á persónuupplýsingum notenda samfélagsmiðilsins var til umræðu á leiðtogafundi ESB í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert