Nýr „Hvers vegna sé ég þetta?-hnappur“

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, og samstarfsfólk hans mun …
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, og samstarfsfólk hans mun á næstunni virkja nýjan valmöguleika í fréttaveitu samfélagsmiðilsins sem útskýrir hvaða algóriþmar ráða því hvað sést á fréttaveitum notenda. AFP

Facebook mun á næstunni virkja nýjan valmöguleika í fréttaveitu samfélagsmiðilsins sem útskýrir hvaða algóriþmar ráða því hvað sést á fréttaveitum notenda.

Við kostuð innlegg notenda verður hægt að ýta á hnappinn „Hvers vegna sé ég þetta?“ sem margir kannast við, en með breytingunni verður hægt að fá ítarlegri upplýsingar um af hverju tiltekin auglýsing birtist í fréttaveitunni.

Facebook, Twitter, YouTube og aðrir samfélagsmiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir að nota algóriþma til að mæla með alls konar efni fyrir notendur sína án þess að útskýra hvernig efnið verður fyrir valinu.

Í frétt BBC kemur fram að notendur í Bretlandi megi búast við því að hnappurinn verði virkjaður í dag og að hann verði kominn í almenna notkun um heim allan 2. maí.

Til að geta nýtt sér „Hvers vegna sé ég þetta?-hnappinn“ þarf einfaldlega að ýta á punktana þrjá hjá kostuðu innleggi og þá á valmöguleikinn að vera sá fjórði í röðinni.

Með breytingu á hnappnum munu notendur fá ítarlegri upplýsingar um …
Með breytingu á hnappnum munu notendur fá ítarlegri upplýsingar um hvers vegna tilteknu efni er beint að þeim. Hingað til hafa einungis verið veittar upplýsingar um mögulegar ástæður þess að notendur sjái tiltekna auglýsingu. Sem dæmi má nefna að blaðamaður mbl.is sér þessa auglýsingu frá Landspítalanum þar sem hann er eldri en 18 ára og hefur verið búsettur á Íslandi undanfarið. Skjáskot/Facebook

„Hvers vegna sé ég þetta?“-hnappurinn var kynntur til sögunnar árið 2014 en með breytingunni munu notendur fá upplýsingar um hvað það er nákvæmlega sem gerir það að verkum að tiltekin auglýsing birtist. Hingað til hafa einungis verið veittar upplýsingar um mögulegar ástæður þess að notendur sjái tiltekna auglýsingu.

„Þessi uppfærsla er hluti af fjárfestingu okkar í að gefa fólki færi á að setja hlutina í aukið samhengi og veita því aukna stjórn á Facebook,“ segir í bloggfærslu á heimasíðu Facebook.

Samfélagsmiðlarisinn hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að greint var frá því að greiningarfyrirtækið Cambridge Ana­lytica hefði nýtt sér per­sónu­upp­lýs­ing­ar millj­óna manna sem sótt­ar voru í gegn­um app með spurn­inga­leik. Upp­lýs­ing­arn­ar voru svo notaðar til að láta mis­mun­andi stjórn­mála­aug­lýs­ing­ar birt­ast not­end­um.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, kallaði eftir því í síðustu viku að það ætti að vera á ábyrgð stjórnvalda að fylgjast með skaðlegu efni á samfélagsmiðlum þar sem það væri of stórt verkefni fyrir fyrirtækin til að takast á við ein og óstudd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert