Sendir boð um fund beint í Hvíta húsið

AFP

Norður kóreskir embættismenn hafa tjáð bandarískum kollegum sínum það milliliðalaust að Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sé tilbúinn að ræða það að hann láti af kjarnorkuvopnaáætlun sinni. Mun skilaboðunum hafa verið komið áleiðis til að greiða fyrir því að Kim fái fund með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. AFP-fréttastofan greinir frá.

Þetta er í fyrsta skipti sem boð um fund kemur frá embættismönnum Norður-Kóreu beint í Hvíta húsið, en áður hafði boðinu verið komið til skila í gegnum Chung Eui-yong, öryggisráðgjafa Suður Kóreu.

„Bandaríkin staðfesta að Kim Jong Un er tilbúinn að ræða það að Norður-Kórea láti af kjarnorkuvopnaáætlun sinni,“ sagði embættismaður í Hvíta húsinu í samtali við Washington Post í dag.

Fundur leiðtogana mun væntanlega fara fram í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert