Reyndist svikasíða með áströlsk tengsl

Síðan var með rúmlega helmingi fleiri fylgjendur en opinber síða …
Síðan var með rúmlega helmingi fleiri fylgjendur en opinber síða Black Lives Matter hreyfingarinnar og tengd við ýmsar fjáröflunarsíður. AFP

Stærsta Facebook-síðan sem talinn var hluti af „Black Lives Matter“ hreyfingunni reyndist vera svikasíða, sem sögð er stofnuð af hvítum, miðaldra manni sem er hátt settur í áströlsku verkalýðshreyfingunni að því er fréttastofa CNN greinir frá.

Síðan hét einfaldlega Black Lives Matter og var með tæplega 700.000 fylgjendur, meira en helmingi fleiri en síða hinna raunverulegu Black Lives Matter samtaka. Hún var ennfremur tengd fjáröflunarsíðum á netinu sem greiddu a.m.k. 100.000 dollara, eða tæplega 10 milljónir króna, til málefna Black Lives Matters í Bandaríkjunum. Hluti fjárins var hins vegar yfirfærður á ástralska bankareikninga.

Guardian segir Ian Mackay, sem er hátt settur í áströlsku verkalýðshreyfingunni, nú hafa verið leystan frá störfum, vegna fregna af að hann standi að baki síðunni.

Hafa PayPal og Patreon þegar stöðvað fjáröflunarherferðir til síðunnar að því er CNN greinir frá og það sama gildir um hópfjármögnunarsíðurnar Donorbox og Classy.

Staðfesti hverjir standi að baki síðunum

For­stjóri og stofn­andi Face­book, Mark Zucker­berg, sagði í yfirlýsingu sem hann sendi bandaríska þinginu í gær að hann bæri per­sónu­lega ábyrgð á þeim mis­tök­um sem urðu til þess að  upp­lýs­ing­ar um millj­ón­ir manna láku frá not­end­um sam­fé­lags­miðils­ins til breska fyr­ir­tæk­is­ins Cambridge Ana­lytica, sem starfaði fyr­ir kosn­inga­skrif­stofu Don­ald Trump.

Hefur Facebook tilkynnt að til standi að láta þá eigendur Facebook-síðna sem eru með mikinn fjölda fylgjenda staðfesta hverjir standi að baki þeim og hvar þeir séu staðsettir. CNN segir þó ekki ljóst hvort það hefði breytt einhverju varðandi Black Lives Matters síðuna. Sögðu forsvarsmenn Facebook raunar upphaflega við fréttastofuna að síðan bryti ekki í bága við reglur þeirra, viku síðar ákvað Facebook hins vegar að loka síðunni.

Þykir þetta vekja spurningar um hvort forsvarsmönnum Facebook sé raunverulega alvara með þeim fullyrðingum sínum að breyta stefnu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert