Drap tvífara sinn og er á flótta

Ann Riess er grunuð um að hafa banað tvífara sínum …
Ann Riess er grunuð um að hafa banað tvífara sínum í þeim tilgangi að stela persónu hennar og nýta í eigin þágu. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan í Flórída leitar að konu sem er grunuð um að hafa orðið eiginmanni sínum að bana ásamt konu sem líkist henni sjálfri. Konan er grunuð um að hafa banað konunni í þeim tilgangi að stela persónu hennar og nýta í eigin þágu.

Í frétt BBC kemur fram að Ann Riess, hin grunaða, sást tala við fórnarlamb sitt, Pamelu Hutchinson, nokkrum dögum áður en hún skaut hana til bana. Grunur leikur á að Riess hafi flúið til borgarinnar Corpus Christi í Texas.

Aðstoðarlögreglustjórinn í Lee-sýslu í Flórída segir að talið sé að Riess sé vopnuð og hættuleg og gæti framið morð á ný þegar hana vanti peninga. „Hún brosir og lítur út eins og hver önnur mamma eða amma,“ sagði hann í samtali við NBC-fréttastofuna. Sjálf á hún þrjú börn og eitt barnabarn.

Talið er að Riess hafi vingast við Hutchinson til að nýta sér hversu líkar þær eru. Nokkrum dögum síðar á hún að hafa látið til skarar skríða og drepið hana. Hutchinson fannst látin fyrir viku og voru bíll hennar, skilríki og veski hvergi sjáanleg.

Riess var í felum í Flórída en hún er grunuð um að hafa skotið eiginmann sinn til bana fyrir mánuði. Lögreglan í Minnesota hefur leitað að henni síðan í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert