Sendinefnd heyrði sögur rohingja og hittir svo Aung San Suu Kyi

Gaddavírsgirðing á svæði á landamærum Búrma og Bangladess þar sem …
Gaddavírsgirðing á svæði á landamærum Búrma og Bangladess þar sem flóttafólk úr hópi rohingja hefur safnast saman. Þar er sendinefnd öryggisráðsins nú að störfum. AFP

Sendinefnd frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna heimsótti flóttamenn úr hópi rohingja á svæði sem er á milli Bangladess og heimalands þeirra Búrma í dag. Nefndinni er ætlað að leggja mat á þann gríðarlega vanda sem steðjar að flóttafólkinu.

Stjórnvöld í Búrma hafa orðið fyrir gríðarlega harðri gagnrýni alþjóðasamfélagsins frá því að herferð þeirra gegn rohingjum hófst í landinu af miklum þunga í ágúst. Síðan þá hafa að minnsta kosti 700 þúsund þeirra flúið yfir landamærin og til Bangladess. Flóttafólkið hefur lýst hroðalegum ofbeldisverkum hermannanna sem hafa myrt og nauðgað fólki.

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna mun taka viðtöl við flóttafólk í flóttamannabúðunum en halda svo til Búrma og eiga fund með Aung San Suu Kyi, leiðtoga landsins. Hún er friðarverðlaunahafi Nóbels en hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að ræða ekki opinberlega um ofbeldið gegn rohingjum. 

Börn úr hópi rohingja í flóttamannabúðum á landmærum Bangladess og …
Börn úr hópi rohingja í flóttamannabúðum á landmærum Bangladess og Búrma. AFP

Öryggisráðið hvetur stjórnvöld í Búrma til að tryggja öryggi þeirra rohingja sem vilja snúa aftur heim. Rohingjar, sem eru múslimar, hafa verið áreittir í landinu áratugum saman og hafa ekki ríkisborgararétt í Búrma þrátt fyrir að hafa verið þar í fleiri kynslóðir. Meirihluti íbúa Búrma eru búddistar. 

Yfirmaður flóttamannabúðanna í Bangladess, Mohammad Abul Kalam, segir að í sendinefndinni séu 26 erindrekar frá 15 löndum. Nefndin heimsækir fyrst Konarpara-flóttamannabúðirnar þar sem um 6.000 rohingjar halda til.

Leiðtogi rohingja í búðunum, Dil Mohammad, segist hafa hitt nefndina sem hafi svo rætt við nokkrar konur sem eru fórnarlömb ofbeldisverka í Rakhine-héraði í Búrma. Þá hafi nefndin einnig rætt við öldunga úr hópnum.

„Við sögðum þeim að við værum hér til að reyna að halda lífi. Við viljum komast aftur heim ef öryggi okkar verður tryggt,“ segir Mohammad.

Sendinefndin hefur í dag rætt við flóttafólk og mun svo …
Sendinefndin hefur í dag rætt við flóttafólk og mun svo eiga fund með leiðtoga Búrma. AFP

Sendinefndin mun síðar í dag heimsækja Kutupalong-flóttamannabúðirnar en þar hefur flóttafólkið í dag mótmælt mannréttindabrotum sem það varð fyrir í heimalandi sínu og krefst þess að öryggi þeirra verði tryggt. Lögreglan segir að mótmælin hafi verið friðsamleg.

„Við viljum frá ríkisborgararétt [í Búrma] sem rohingjar. Við viljum öryggi og að geta snúið aftur heim,“ sagði leiðtogi flóttamannanna, Mohibullah, í samtali við fréttamanna AFP.

Stjórnvöld í Búrma fullyrða að hernaði þeirra í Rakhine-ríki sé ætla að brjóta á bak aftur skæruliðahópa rohingja. Þau hafa hafnað með öllu að hermennirnir hafi framið stríðsglæpi í ríkinu.

Sendinefndin mun einnig eiga fund með forsætisráðherra Bangladess. Þá mun hún skoða Rakhine-héraði úr lofti í þyrlu. Vill nefndin þannig sjá með eigin augum þá eyðileggingu sem flóttamennirnir segja að hafi átt sér stað en þeir halda því meðal annars fram að hermenn hafi kveikt í fjölda þorpa. 

Sendiherra Kúvæt í nefndinni, Mansour al-Otaibi, segir að ekki sé ætlunin að benda á sökudólga í málinu heldur að leita lausna. 

Á föstudag fóru mannréttindasamtökin Human Rights Watch fram á að ofbeldisverk hersins í Búrma gegn rohingjum verði tekin til umfjöllunar hjá Alþjóðlega glæpadómstólnum í Haag. „Þar sem ekki hefur tekist að leysa málið innan öryggisráðsins telur ríkisstjórn Búrma sig vera að komast upp með fjöldamorð,“ sagði Kenneth Roth formaður samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert