Íranar vilja halda samningnum á lífi

Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, tekur á móti Mohammad Javad Zarif, …
Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, tekur á móti Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans í Peking í dag. AFP

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, hóf diplómatískt ferðalag sitt í dag til aðildarríkja kjarnorkusamnings við Íran í þeim tilgangi að ræða mögulegar leiðir til að viðhalda samningnum eftir útgöngu Bandaríkjanna.

Írönsk yfirvöld hafa lýst yfir vilja til að standa við samninginn þrátt fyrir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi dregið ríkið út úr samningnum á þriðjudag og lýst því yfir að Íran, og ríki sem eiga í viðskiptum við landið, verði beitt refsiaðgerðum.

Fyrsti viðkomustaður Zarif er Kína. Þaðan fer hann til Rúss­lands og loks er ferð hans heitið til Brus­sel á þriðju­dag þar sem hann mun ræða fyr­ir­hugaðar refsiaðgerðir Banda­ríkj­anna við ut­an­rík­is­ráðherra Frakk­lands, Þýska­lands og Bret­lands.

Zarif og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, ræddust við í Peking. Zarif segir að mikilvægast sé að tryggja samningnum örugga framtíðarsýn. „Ef samningurinn á að halda skiptir öllu máli að hagsmunir írönsku þjóðarinnar verði tryggðir,“ sagði Zarif eftir fund sinn með Yi í dag.

Forseti Írans, Hassan Rouhani, hefur lýst því yfir að Íranar vilji viðhalda samningnum og standa við sínar skuldbindingar, það er að hætta kjarnorkutilraunum gegn því að efnahagsþvinganir á landið yrðu aflagðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert