Reyndu að letja til kosningaþátttöku

Christopher Wylie fer með eið áður en hann ber vitni ...
Christopher Wylie fer með eið áður en hann ber vitni fyrir þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Fyrirtækið Cambridge Analytica hélt úti auglýsingaherferðum sem voru ætlaðar til þess að draga úr kosningaþátttöku ákveðins hóps kjósenda í bandarísku forsetakosningunum. Þetta fullyrti Christopher Wylie, uppljóstrarinn sem greindi frá því að Cambridge Analytica hefði nýtt sér persónuupplýsingar milljóna Facebook-notenda til að aðstoða Donald Trump að hafa sigur í kosningunum, í yfirheyrslu hjá dómsnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Fréttastofa CNN segir Wylie hafa greint nefndinni frá því að fyrirtækið hafi útbúið auglýsingar sem beindust að hluta bandarískra kjósenda og áttu að letja þá til kosningaþátttöku.

„Bannon [Steven Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trumps] lítur á menningarhernað sem aðferð til að breyta bandarískum stjórnmálum. Þess vegna réð Bannon SCL [sem á Cambridge Analytica], erlendan hernaðarverktaka, til að útbúa vopnabúr upplýsingavopna sem hann gæti beint gegn bandarískum almenningi,“ fullyrti Wylie.

Hann tiltók þó engin sérstök dæmi máli sínu til stuðnings, en er öldungadeildarþingmaðurinn Chris Coons spurði Wylie hvort eitt af markmiðum Bannons hefði verið að letja vissa kjósendur til að greiða atkvæði, sagði hann það hafa verið sinn skilning.

CNN hefur eftir Wylie að hann sjálfur hafi ekki tekið þátt í þessari herferð, en að hún hafi beinst gegn svörtum kjósendum.

Þá sagði Wylie nefndinni einnig að hann telji rússneska ráðamenn mögulega hafa fengið aðgang að persónuupplýsingum bandarískra kjósenda sem tengdust Facebook. Útlistaði hann m.a hvernig Aleksandr Kogan, sem Cambridge Analytica keypti persónuupplýsingarnar af, hefði farið í fjölda ferða til Rússlands vegna samstarfs síns við háskólann í Sankti Pétursborg.

mbl.is
Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...
NP þjónusta
NP Þjónusta Óska eftir að annast bókhaldsvinnu og fleira þess háttar. Upplýsinga...
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...