ESB leggur til bann við plastumbúðum

Plasthnífapör og plastglös eru meðal þess sem bannið á að ...
Plasthnífapör og plastglös eru meðal þess sem bannið á að ná til. AFP

Evrópusambandið hyggst leggja til bann við notkun á einnota plastvarningi til að stuðla að vernd á lífríkis hafsins. Bannið á m.a. að ná til drykkjarröra, eyrnapinna, plaststauka sem festir hafa verið við blöðrur og plaststauka sem notaðir eru til að hræra í drykkjum.

Þá vill ESB einnig festa í lög að endurvinnslu á öllum plastflöskum fyrir árið 2025. Að sögn BBC verða ESB ríkin 28 og Evrópuþingið þó að samþykkja frumvarpið áður en það getur orðið að lögum.

„Plastúrgangur er óneitanlega stórt mál og Evrópubúar þurfa að sameinast um að taka á þessum vanda,“ segir Frans Timmermans varaforseti ESB. „Frumvarpsdrögin sem lögð eru fram í dag munu draga úr magni einnota plasts í stórverslunum í gegnum fjölda aðgerða. Við munum banna suma þessara hluti og skipta þeim út fyrir umverfisvænni valkosti þannig að fólk geti áfram notað uppáhalds vörurnar sínar.“

Drykkjarrör úr plasti kunna einnig að verða bönnuð fáist frumvarpið ...
Drykkjarrör úr plasti kunna einnig að verða bönnuð fáist frumvarpið samþykkt. AFP

Frumvarpið beinist gegn einnota plastumbúðum utan um matvæli m.a. utan af skyndibitafæði, plasthnífapörum, -diskum og -bollum.  Ekki eru hins vegar sett tímamörk á það hvenær bannið eigi að taka gildi.

Fáist bannið samþykkt verður aðildarríkjum ESB hins vegar gert að leggja sitt af mörkum til að draga úr fjölda einnota matvælaumbúða úr plasti sem seld eru í viðkomandi landi.

Þá verður hverju landi gert að standa að fræðsluherferð og er matvælaframleiðendum gert að merkja vörur sínar skýrt og upplýsa neytendur um það hvar henda eigi plastumbúðum. Ennfremur á að hvetja matvælaframleiðendur með jákvæðum aðgerðum til að skipta yfir í vistvænar umbúðir.

Einnig kann svo að fara að framleiðlendum plastumbúða verði gert að greiða fyrir förgunarkostnað.

mbl.is