Kvensjúkdómalæknir limlesti sjúklinga

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu hafa hafið rannsókn á kvensjúkdómalækni sem er sakaður um að hafa limlest og gert ónauðsynlegar aðgerðir á tugum kvenna undanfarna áratugi. Ein þeirra lést eftir aðgerðina. 

Lækninum, Emil Shawky Gayed, hefur verið vikið frá störfum og hafa heilbrigðisyfirvöld í  New South Wales sett af stað rannsókn á þeim sjúkrahúsum þar sem hann starfaði. Konur, sem Gayed gerði aðgerðir á, eru hvattar til þess að hafa samband en Gayed hefur verið bannað að stunda lækningar í þrjú ár.

Málið komst fyrst í kastljósið eftir að Guardian í Ástralíu hóf fréttaflutning af störfum Gayed í bænum Taree. Þar kom í ljós að tugir kvenna hafa fengið sýkingar, taugaáfall eða aðra kvilla eftir meðferð hjá Gayed á Manning sjúkrahúsinu. 

Til að mynda fjarlægði Gayed leg einnar konu þegar verkjatöflur og hvíld hefðu nægt. Konan samþykkti aldrei legnámið segir í niðurstöðu rannsóknar. 

Eins fjarlægði Gayed fullkomlega heilbrigðan eggjaleiðara úr annarri konu og gerði sér ekki grein fyrir því að kona, sem hann gerði aðgerð á, væri þunguð. Auk þess sem aðgerðin var óþörf þá setti hún fóstrið í hættu. Í stað þess að tilkynna mistökin til framkvæmdastjórnar sjúkrahúsin greiddi Gayed fyrir konuna ferð til Sydney þar sem bundinn var endi á þungunina. Konan var komin tuttugu vikur á leið þegar þetta var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert