Kennedy lætur af störfum við Hæstarétt

Anthony Kennedy, fyrir miðju, er næstelsti dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna.
Anthony Kennedy, fyrir miðju, er næstelsti dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna. AFP

Hæstaréttardómarinn Anthony Kennedy hefur tilkynnt að hann ætli að láta af störfum við Hæstarétt Bandaríkjanna í lok júlí. Ákvörðun hans gefur Donald Trump forseta tækifæri á að gera þetta hæsta dómsvald Bandaríkjanna enn hægrisinnaðra og íhaldssamara. BBC greinir frá.

Atkvæði Kennedy við Hæstarétt hefur oft skipt sköpum, en hann kýs ýmist með þeim íhaldssömu eða þeim frjálslyndu. Hæstarétt skipa níu dómarar, en fjórir þeirra eru íhaldssamir og fjórir frjálslyndir. Kennedy tryggði meðal annars rétt samkynhneigðra til hjónabands í atkvæðagreiðslu þar sem fimm gegn fjórum greiddu atkvæði með frumvarpinu.

Afsögn Kennedys, sem er 81 árs og næstelsti dómari réttarins, gefur repúblikönum tækifæri á að skipa íhaldssaman dómara í hans stað.

Í afsagnarbréfi sínu til  Trump sagðist Kennedy fullur þakklætis fyrir að hafa fengið að þjóna við Hæstarétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert