Ákærður fyrir hatursglæpi

Hvítir kynþáttahatarar frá ýmsum samtökum komu saman til að mótmæla …
Hvítir kynþáttahatarar frá ýmsum samtökum komu saman til að mótmæla í Charlottesville. AFP

Bandaríkjamaðurinn James Alex Fields hefur verið ákærður fyrir hatursglæp, en hann keyrði bifreið inn í mannþröng í mótmælum í Charlottesville með þeim afleiðingum að ein manneskja lést og margir slösuðust.

Samkvæmt frétt Guardian hefur dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákveðið að ákæra hinn 21 árs gamla Fields fyrir 30 glæpi, þar af 29 hatursglæpi. Þá hefur Fields þegar verið ákærður fyrir morð og aðra glæpi í Virginíu.

James Alex Fields.
James Alex Fields. AFP

Fields var félagi í einum af þeim haturshópum sem stóðu fyrir kröfugöngu um að sameina hægrisinnaða Bandaríkjamenn í ágúst á síðasta ári. Um var að ræða þjóðernissinna með mikilmennskubrjálæði sem gengu um bæinn með kyndla og heilsuðu að nasistasið.

Daginn eftir, þegar hópurinn heimsótti almenningsgarð þar sem stytta stendur af Suðurríkjahershöfðingja, braust út mikið ofbeldi á milli þeirra og fólks sem kom til að mótmæla göngunni. Þjóðernissinnarnir voru margir hverjir vopnaðir kylfum og spýtum.

Fields er sakaður um að hafa viljandi keyrt inn í hóp fólks í þröngri götu sem var á leið heim eftir mótmælin. Heather Heyer lést vegna árásarinnar og hefur Fields sætt gæsluvarðhaldi síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert