Erfðaefni Súdans í fósturvísi

Nokkrum mánuðum eftir dauða Súdans, síðasta karldýrs norðlæga hvíta nashyrningsins, segjast vísindamenn hafa ræktað fósturvísa með erfðaefni deilitegundar hans. Tíðindin hafa vakið von um að nú verði hægt að koma í veg fyrir algjöra útrýmingu hennar. 

Aðeins tvær norðlægir hvítir nashyrningar eru eftir á jörðinni, tvö ófrjó kvendýr. 

„Markmið okkar er að á næstu þremur árum fæðist norðlægur hvítur nashyrningskálfur,“ segir Thomas Hildebrandt, yfirmaður æxlunardeildar Leibniz-stofnunarinnar í Berlín. „Meðgangan tekur sextán mánuði og miðað við það höfum við innan við ár til að [setja fósturvísana upp] með árangursríkum hætti.“ 

Ný aðferð

Nýrri tækni var beitt við aðgerðina og er um að ræða fyrstu fósturvísa nashyrnings sem búnir eru til með tæknifrjóvgun.

Fósturvísarnir eru nú í frysti en Hildebrandt telur að mjög líklegt sé að vel takist til við að koma þeim fyrir í legi staðgöngumóður.

Notað var sæði úr norðlægum hvítum nashyrningi og egg úr suðlægum hvítum nashyrningi en þúsundir dýra af þeirri tegund finnast enn í heiminum.

Vísindamennirnir vona nú að þeim takist að safna kynfrumum úr tveimur síðustu kvendýrum deilistofnsins, þeim Najin og Fatu. Önnur þeirra er dóttir Súdans og hin dótturdóttir. Þær búa nú í friðlandinu í Kenía þar sem Súdan eyddi síðustu æviárum sínum.

Með því að frjóvga þau egg með sæði úr norðlægum hvítum nashyrningum og koma þeim fósturvísum upp í kvendýrum annarra deilitegunda vonast vísindamennirnir til þess að geta viðhaldið tegundinni sem annars myndi alfarið þurrkast út.

„Niðurstöður okkar benda til þess að tæknifrjóvgun gæti verið lausnin til að bjarga norðlæga hvíta nashyrningnum frá því að deyja út,“ stendur í grein vísindateymisins í nýjasta hefti tímaritsins Nature Communications.

Vilja egg úr mæðgunum

Vísindamennirnir hafa nú sótt um leyfi til að taka egg úr Najin og Fatu í Kenía og vona að þeir fái það á þessu ári.

En aðgerðin er ekki hættulaus: „Við verðum að svæfa þær í tvær klukkustundir og það felur í sér nokkra áhættu,“ segir Hildebrandt. „Við erum hrædd um að eitthvað óvænt gerist og það yrði martröð.“

En áður að þessu öllu kemur ætla vísindamennirnir að „æfa sig“ með því að koma fósturvísum með blönduðu erfðaefni deilitegundanna tveggja, upp í staðgöngumæðrum.

Og þeir blönduðu nashyrningar, sem yrðu til með þeim hætti, gætu gengt mikilvægu hlutverki staðgöngumæðra fósturvísa sem eingöngu eru gerðir úr erfðaefni norðlæga hvíta nashyrningsins. 

Vantar fjölbreytileikann

En ákveðin hindrun stendur þó í vegi fyrir því að tæknifrjóvgun sem þessi geti alfarið bjargað deilitegundinni. Ástæðan er sú að allt erfðaefni sem vísindamennirnir gætu mögulega haft úr henni er aðeins úr fjórum dýrum að mæðgunum í Kenía meðtöldum. Fjölbreytileikinn er nauðsynlegur svo að tegundir dafni.

 Til að leysa þetta vandamál þarf að líta lengra inn í framtíðina. Vísindamennirnir vonast til þess að hægt verði að nota stofnfrumutæknina til að búa til kynfrumur úr frosinni húð tólf óskyldra norðlægra hvítra nashyrninga.

 „Það myndi styrkja stoðirnar og framtíðarhorfur deilitegundarinnar verulega,“ segir í yfirlýsingu vísindamannanna. 

Alist upp með mæðgunum

En tíminn er að hlaupa frá vísindamönnunum. Æskilegast væri að mæðgurnar í Kenía væru enn á lífi til að geta átt í samskiptum við kálfanna sem vonast er til að fæðist með hjálp tækninnar. „Það setur á okkur pressu að gera þetta sem fyrst svo að kálfarnir sem við búum til geti alist upp með Najin og Fatu,“ segir Hildebrandt.

Terri Roth og  William Swanson, sérfræðingar við dýragarðinn í Cincinnati segja að tæknifrjóvgun ein og sér geti ekki bjargað tegundinni frá því að deyja út. Þó að tæknifrjóvgun sé möguleg þá sé ekki víst að hún skili sér í heilbrigðri hjörð dýra. Roth og Swanson, sem koma ekki nálægt tilraun Hildebrandt og félaga, telja það ólíklegt að hægt verði að tegundinni.

En vísindamennirnir telja það þess virði að reyna og segja að sínar fyrirhuguðu aðgerðir gætu orðið uppskrift af því hvernig hægt verði að bjarga útdauða fleiri tegunda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert