Brexit-ráðherra hættur

David Davis hefur sagt af sér.
David Davis hefur sagt af sér. AFP

David Davis, ráðherra útgöngumála í bresku ríkisstjórninni, hefur sagt af sér. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að Theresa May tryggði stuðning ríkisstjórnarinnar við Brexit-áætlun sína. Mörgum þykir áætlunin of mild.

Í frétt BBC um málið segir að Davis hafi tekið við embættinu árið 2016. Hann hefur verið ábyrgur fyrir því að semja um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. 

Í uppsagnarbréfi sínu til May skrifaði Davis að núverandi stefna og aðferðafræði gerði það að verkum að sífellt ólíklegra væri að Bretland myndi yfirgefa tollabandalag og innri markað ESB.

Hann sagðist óttast að nálgun ríkisstjórnarinnar í samningaviðræðunum myndi leiða til enn frekari krafna um tilslakanir af hennar hálfu. Samningsstaðan væri í besta falli veik.

May sagði í svarbréfi sínu að hún væri honum ósammála hvað varðaði stefnu stjórnarinnar í málinu sem samþykkt var í ríkisstjórninni á föstudag. Sagðist henni þykja leitt að sjá á eftir honum og þakkaði honum fyrir starf sitt og fyrir að móta stefnu um útgöngu úr ESB.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert