Rasisti í lífstíðarfangelsi fyrir morð

Beate Zschäpe ásamt verjanda sínum, Mathias Grasel.
Beate Zschäpe ásamt verjanda sínum, Mathias Grasel. AFP

Þýsk kona, Beate Zschäpe, var dæmd í lífstíðarfangelsi í dag fyrir tíu morð sem hún framdi í félaga sína úr þjóðernishreyfingu nýnasista. Fólkið sem hún myrti voru níu innflytjendur af tyrkneskum og grískum uppruna og þýsk lögreglukona.  

Zschäpe, sem er 43 ára gömul, framdi morðin í félagi við fyrrverandi ástmann sinn og vin þeirra á tímabilinu 2000 til 2007. Þríeykið tilheyrði þjóðernishreyfingunni Nationalsozialistischer Untergrund, NSU.  Morðárásirnar beindust einkum að kaupmönnum úr röðum Tyrkja og Kúrda. Hópurinn er einnig grunaður tilraun til að myrða annan lögreglumann, tvö sprengjutilræði í Köln og fjórtán bankarán.

Þýska lögreglan taldi lengi að tyrkneska mafían stæði á bak við morðin og það var ekki fyrr en í nóvember 2011 sem lögreglan komst á spor morðingjanna. Allan þennan tíma mun lögreglan ekki hafa vitað af nýnasistahópnum, segir í frétt Morgunblaðsins um sjónvarpsþætti þar sem fjallað var um málið árið 2016. 

Tveir liðsmenn hópsins, Uwe Mundlos og Uwe Böhnhardt, fundust látnir í húsvagni eftir misheppnað bankarán í nóvember 2011. Talið er að þeir hafi kveikt í húsvagninum og fyrirfarið sér með byssu þegar lögreglumenn umkringdu hann.

„Fjallað er um morðin í þremur 90 mínútna löngum þáttum sem Gabriela Sperl segir vera þarfa áminningu um hættuna sem stafi af þjóðernisöfgamönnum í Evrópu. Hún telur að nýnasistahreyfingar hafi notfært sér tómarúm sem hafi skapast í austanverðu Þýskalandi eftir hrun kommúnismans og endursameiningu landsins. „Allir í austurhlutanum bjuggust við því að þeir myndu eignast Porsche eða BMW eins og Helmut Kohl [þáverandi kanslari] hafði ýjað að,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Sperl. „Hann sagði að allir yrðu ríkir. Það sem gerðist í raun er að fólk í vesturhlutanum keypti allt og íbúar austurhlutans misstu atvinnuna. Unga fólkið hafði enga vinnu og enga von.“

Sperl segir að nýnasistahreyfingarnar beiti svipuðum aðferðum og Ríki íslams og fleiri öfgasamtök íslamista við að afla sér nýrra liðsmanna og innræta þeim öfgastefnuna. Þær leggi áherslu á að ná til ungra manna í fangelsum landsins.

Höfundur handrits þáttanna, Thomas Weindrich, ólst upp í Austur-Þýskalandi eins og Zschäpe, Mundlos og Böhnhardt. Hann segir að nýnasistahreyfingarnar hafi verið á jaðri samfélagsins fyrstu árin eftir hrun Berlínarmúrsins og aðallega verið skipaðar ungum fótboltabullum og snoðinkollum sem hafi sóst eftir áflogum. „Nú er ekki hægt að ganga um göturnar án þess að nýnasisti verði á vegi manns,“ segir í frétt Morgunblaðsins um málið. 

Ralf Wohlleben.
Ralf Wohlleben. AFP

Þrátt fyrir að yfirleitt þýði lífstíðardómur í Þýskalandi 15 ára fangelsi og síðan eru fangar látnir lausir á grundvelli góðrar hegðunar þá verði ekki svo í þessu tilviki. Sagði dómarinn að Beate Zschäpe eigi ekki möguleika á reynslulausn vegna alvarleika glæpsins. Verjandi hennar segir að niðurstöðunni verði áfrýjað.

Fjórir aðrir sakborningar voru einnig dæmdir fyrir aðild að málinu. Ralf Wohlleben, félagi í nasistaflokknum NPD, var dæmdur í tíu ára fangelsi, Carsten S  og Holger G voru dæmdir í þriggja ára fangelsi og André E fékk tveggja og hálfs árs dóm við að veita morðingjunum aðstoð. Mennirnir eru allir þjóðernissinnar og störfuðu með NPD. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert