Svíþjóð brennur: Samantekt

Gríðarlegur reykur kemur frá eldunum í Karbole.
Gríðarlegur reykur kemur frá eldunum í Karbole. AFP

Skógareldar loga nú á um fjörutíu stöðum vítt og breitt um Svíþjóð. Í nótt þurfti að rýma enn fleiri hús vegna eldanna. Stærstu eldana er að finna í Härjedalen, Ljusdal og Älvdalen, að því er fram kemur í frétt sænska ríkisútvarpsins. 

Hér að neðan má finna nokkrar helstu staðreyndir um skógareldana miklu:

Langvarandi þurrkar og mikill hiti varð til þess að skógareldar brutust út víðs vegar um Svíþjóð. Eldarnir eru taldir þeir mestu í nútímasögunni.

Í dag loga eldar á um fjörutíu stöðum. Yfirvöld hafa sent út fjölda aðvarana til almennings. Í nótt fengu íbúar í þorpum í Jämtlandi m.a. skilaboð um að rýma hús sín. Gengu lögreglumenn á milli húsa og knúðu á dyr til að vara fólkið við. „Í augnablikinu er eldurinn í Hanåsen stjórnlaus. Hann ógnar ekki enn byggð en brennur við vegi á svæðinu og því er hætta á að fólk verði innlyksa,“ hefur SVT eftir Niklas von Essen, starfsmanni slökkviliðsins, í nótt.

Mestir eru eldarnir í Hårjedalen í Jämtlandi og í skógunum umhverfis Ljusdal í Gävleborg. Einnig hafa skógar ofan Hälsingland og Dalanna orðið illa úti.

Síðustu daga hafa nokkur þorp og smábæir verið rýmd vegna eldhættu.

Mjög erfiðlega gengur að ráða við eldana og gríðarlegt álag hefur verið á slökkviliðum landsins en hundruð slökkviliðsmanna berjast við eldana. Noregur hefur lánað tíu þyrlur til verksins og Ítalir sendu tvær sérútbúnar slökkviflugvélar til aðstoðar í gær. Þá aðstoðar einnig hópur sænskra sjálfboðaliða við að slökkvistarfið.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir svo að danskt björgunarteymi sé einnig á leið á vettvang. 

Sænsk yfirvöld hafa farið fram á frekari neyðaraðstoð við Evrópusambandið.

Áfram er spáð þurru og heitu veðri næstu daga. Þá blossar vindur upp reglulega sem hefur erfiðað slökkvistarfið á mörgum stöðum. Þar hafa slökkviliðsmenn orðið frá að hverfa og þyrlur og flugvélar að taka við.

Fyrir utan hættuna sem kann að steðja að mannfólki er óttast um áhrif eldanna á dýralíf. 

Frétt Aftonbladet

Þyrla dreifir vatni yfir skóga í grennd við Ljusdal.
Þyrla dreifir vatni yfir skóga í grennd við Ljusdal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert