Segja Hvítu hjálmana vera hryðjuverkamenn

AFP

Utanríkisráðuneyti Sýrlands fordæmir brottflutning hundruð liðsmanna Hvítu hjálmanna og fjölskyldna þeirra frá Suður-Sýrlandi en Ísrael kom að flutningi þeirra frá átakasvæðunum.

Yfir 400 björgunarsveitarmenn og fjölskyldur þeirra voru fluttir frá Daraa og Quneitra héruðum til Ísrael í gær en þaðan var farið með hópinn til Jórdaníu. Hópurinn fær hæli í nokkrum vestrænum ríkjum.

Ísraelskur hermaður gefur barni úr fjölskyldu Hvítu hjálmanna vatn að …
Ísraelskur hermaður gefur barni úr fjölskyldu Hvítu hjálmanna vatn að drekka. AFP

Í yfirlýsingu ráðuneytisins kemur fram að um saknæma aðgerð hafi verið að ræða af hálfu Ísraela. Segir í yfirlýsingunni að Hvítu hjálmarnir séu hryðjuverkasamtök og vara heiminn við hættunni sem fylgir þeim. Ekki sé hægt að lýsa því með orðum reiðinni sem sé í huga Sýrlendinga vegna þessara aðgerða.

Hvítu hjálmarnir eru samtök sem hafa vakið heimsathygli fyrir björgunarstörf á átakasvæðum í Sýrlandi undanfarin ár. Þeir eru yfirleitt fyrstir á vettvang eftir loftárásir og aðrar árásir á svæði uppreisnarmanna í Sýrlandi. Ríkisstjórnir víða um heim hafa stutt við bakið á Hvítu hjálmunum, svo sem Bretlands, Þýskalands, Kanada, Bandaríkjanna auk fjölmargra annarra. 

Frá Ísraelsher - frá björgun Hvítu hjálmanna í gær.
Frá Ísraelsher - frá björgun Hvítu hjálmanna í gær. AFP

Alls komu 422 á þeirra vegum til Jórdaníu í gær og fá þeir hæli í Bretlandi, Kanada og Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert