Pútín vill að Trump verði gestur sinn

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi sínum …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi sínum í Helsinki. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í dag að hann vildi fá Donald Trump Bandaríkjaforseta sem gest til Moskvu. Hvíta húsið tók hugmyndinni opnum örmum að því er Reuters-fréttastofan greinir frá, þrátt fyrir gagnrýni sem undanfarið hefur heyrst á fund þeirra Pútíns og Trump í Helsinki fyrr í mánuðinum.

Pútín lét þessi orð falla er hann tók þátt í efnahagsráðstefnu í Suður-Afríku. Sagði hann „viðeigandi aðstæður“ þurfa að vera hjá báðum ríkjum til að annar leiðtogafundur ætti sér stað.

Hvíta húsið segir Trump vera spenntan fyrir hugmyndinni um annan fund, en hann hefur sagst vilja bæta tengsl ríkjanna eftir mikla spennu milli þeirra undanfarin misseri.

„Trump forseti hlakkar til að fá Pútín forseta til Washington í byrjun næsta árs og hann er opinn fyrir því að heimsækja Moskvu þegar hann fær formlegt boð,“ sagði Sarah Sanders, talsmaður Hvíta hússins, í yfirlýsingu.

Þá er Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagður vera að íhuga fund með varnarmálaráðherra Rússlands, en það væri fyrsti fundur varnarmálaráðherra ríkjanna um árabil. Mattis sagði enga ákvörðun um slíkt þó enn hafa verið tekna.

Trump sætti gagnrýni heima í Bandaríkjunum eftir fund þeirra Pútíns í Helsinki. Var hann m.a. gagnrýndur fyrir að hafa ekki borið meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum upp á Pútín, sem og fyrir að draga eigin njósnastofnanir í efa.

Engar stefnubreytingar urðu heldur í kjölfar fundarins og sagði Mattis í dag að hann hefði ekki fengið nýjar skipanir varðandi stöðuna í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert