Missti alla útlimi eftir sýkingu úr slefi

Kona mannsins segir fjölskylduna einbeita sér að því sem eftir …
Kona mannsins segir fjölskylduna einbeita sér að því sem eftir er af manninum frekar en því sem hann hefur misst. Skjáskot/Newsweek

Aflima þurfti báða fætur og hendur Bandaríkjamanns á fimmtugsaldri vegna sýkingar sem hann hlaut úr slefi hunds sem réðst á hann. Maðurinn, Gren Mateufel frá Winsconsin, var við góða heilsu en hann hefur allt sitt líf umgengist hunda, að því er fram kemur í umfjöllun Newsweek.

Dawn Manteufel, kona hans, segir í samtali við Fox að hundur hafi í síðasta mánuði ráðist á Gren, sleikt hann og gefið honum marbletti. Við heimsókn á spítala kom í ljós að Gren hafði sýkst af bakteríu, sem nefnd er capnocytophaga, sem finnst stundum í munnvatni hunda og getur valdið alvarlegri sýkingu hjá fólki með veikt ónæmiskerfi.

Þeir sem sýkjast af bakteríunni geta fengið útbrot í kringum bitið, hita, niðurgang, ælupest, höfuðverki og vöðvaverki. Samkvæmt Lýðheilsustofnun Bandaríkjanna verður einkenna oft vart um þremur til fimm dögum eftir sýkingu en þó geta liðið allt að tvær vikur.

Greg Manteufel.
Greg Manteufel. Ljósmynd/GoFundMe

„Sýkingin í þessu tilfelli stafar af mjög alvarlegum viðbrögðum líkama hans,“ segir Silvia Munoz-Price læknir í samtali við Fox. „Meira en 99 prósent fólks sem á hund munu aldrei lenda í vandræðum. Þetta er bara hending.“

Sýkingin varð til þess að blóðþrýstingur Grens féll skarpt og blóðflæði til útlima minnkaði til muna, sem varð til þess að útlimirnir sortnuðu. Kona hans segir að á innan við viku hafi fæturnir verið orðnir máttlausir og skömmu síðar hafi hendur fylgt í kjölfarið.

Enginn líkamshluti fór varhluta af sýkingunni en talið er að Greg muni þurfa nokkrar skurðaðgerðir til viðbótar, til að mynda á nefi. Fjölskylda hans hefur efnt til söfnunar á vefnum GoFundMe til að eiga fyrir aðgerðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert