Sessions láti Mueller hætta rannsókninni

Donald Trump vill að Mueller verði gert að hætta rannsókn …
Donald Trump vill að Mueller verði gert að hætta rannsókn sinni á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum nú þegar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti í dag Jeff Sessions, dómsmálaráðherra landsins, til að binda endi á rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara FBI á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum og tengslum framboðs Trumps við Rússana, að því er Reuters greinir frá.

Líkt og oft áður nýtti forsetinn sér Twitter til að koma ósk sinni á framfæri. Eftir að hafa sent nokkur Twitter-skilaboð þar sem hann gagnrýndi rannsóknina sjálfa beindi hann orðum sínum til Muellers. „Þetta er hræðileg staða og Jeff Sessions dómsmálaráðherra ætti að stöðva þessar fölsku nornaveiðar núna strax, áður en þær halda áfram að ata land okkar frekari auri,“ sagði Trump á Twitter.

„Bob Mueller er í mótsögn við sjálfan sig og 17 reiðu demókratarnir sem eru að vinna skítverkin fyrir hann eru Bandaríkjunum til skammar!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert