Ráðherra og fegurðardrottning valda usla

Bahareh Letnes, kærasta ráðherrans, segir að ekki megi blanda Íran …
Bahareh Letnes, kærasta ráðherrans, segir að ekki megi blanda Íran og írönskum lögum saman við sharia. Ljósmynd/NRK

Ferð Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, til Íran, sem ráðherrann hefur kallað „skyndiákvörðun og einkamál“, virðist heldur betur ætla að vinda upp á sig. Ferðin hefur verið gagnrýnd af öryggissérfræðingum, netverjum og síðast en ekki síst kollegum á norska Stórþinginu.

Sandberg, sem er 58 ára, fór til Íran með kærustu sinni Bahareh Letnes sem er 28 ára fyrrverandi fegurðardrottning af írönskum uppruna en búsett í Noregi.

„Ég féll fyrir honum vegna persónuleikans og þess að hann er frá Þrændalögum,“ segir Letnes um ráðherrann sem tilheyrir hinum íhaldssama Framfaraflokki en flokkurinn er þekktastur fyrir harða innflytjendastefnu.

Skötuhjúin mættu í þáttinn Dagsnytt 18 á NRK í dag og viðurkenndu þar að eiga í sambandi en áður hafði ráðherrann sagt Letnes vera vinkonu sína. 

Per Sandbergs og Bahareh Letnes á ferð sinni um Íran.
Per Sandbergs og Bahareh Letnes á ferð sinni um Íran. Ljósmynd/Instagram

Erna Solberg forsætisráðherra staðfesti á miðvikudag að Sandberg hefði brotið reglur og hefði átt að láta ríkisstjórnina vita af ferðaplönum sínum. Hún bætti þó við að það mætti gera mistök.

Sögð njósnari íranskra stjórnvalda

Bahareh Letnes er fædd í Íran og var meðal annars krýnd Ungfrú Íran árið 2013. Hún kom til Noregs á táningsaldri sem flóttamaður og fékk þar hæli eftir nokkrar tilraunir.

Því hefur verið haldið fram að Letnes hafi komið til Noregs að undirlagi íranskra stjórnvalda og verið nokkurs konar njósnari þeirra. Í grein í norska Dagblaðinu er farið yfir það hvernig Letnes flúði Íran eftir að hafa ekki viljað giftast manninum sem fjölskylda hennar hafði ætlað henni. Með því braut hún lög í tvígang því hvort tveggja, að flýja Íran og að óhlýðnast fjölskylduföðurnum, er ólöglegt.

Frá Tehran, höfuðborg Íran.
Frá Tehran, höfuðborg Íran. AFP

Árið 2008 hafði nokkrum umsóknum hennar um hæli í Noregi verið hafnað og henni snúið aftur til Íran. Þegar þangað var komið vildu írönsk stjórnvöld hins vegar ekki taka við henni aftur vegna „skorts á gögnum“. Þar sem Íranar vildu ekki taka við henni aftur fékk Letnes loks hælið sem hún hafði sóst eftir í Noregi. Vilja samsæriskenningasmiðir meina að það hafi verið markmið Írana.

Tengsl Letnes við sendiherra Íran í Noregi eru einnig tortryggð en hún hefur unnið að því að styrkja tengsl Noregs og Íran fyrir íranska sendiráðið í Ósló. „Ég hef verið virk í að koma persneskri tónlist á framfæri hér í Noregi,“ sagði Bahareh Letnes í viðtalinu við NRK í morgun. Sama gildi um kvikmyndir frá Íran.

Árið 2011, þegar arabíska vorið stóð yfir, greindi NRK frá því að írönsk stjórnvöld hefðu reynt að fá Írana búsetta í Noregi til að njósna um landa sína.

Klerkastjórnin náði völdum í Íran árið 1979 og batt þar …
Klerkastjórnin náði völdum í Íran árið 1979 og batt þar með enda á 2.500 ára samfellda stjórn persneskra konunga yfir svæðinu. Ljósmynd/Wikipedia

Sharia ekki í aðalhlutverki

Í samtali við NRK sagði Letnes að hún teldi misskilnings gæta um stöðu sharia-laga meðal íranskra laga. „Maður getur sagt að 20 til 30 prósent af írönskum lögum séu sharia.“ Grunnurinn að írönskum lögum sé hins vegar sá sami og í Evrópu.

Mannréttindasamtökin Amnesty International í Noregi hafa sagt ummæli hennar „hvítþvott“ og grófa afbökun á raunveruleikanum í íslamska lýðveldinu.

„Þetta er alveg galið. Það er skilningur Amnesty að réttarkerfið í Íran sé kerfisbundð óréttlátt. Að stilla því upp sem svo að menn fái réttláta málsmeðferð þar er einfaldlega hvítþvottur á ástandinu í landinu,“ segir Sindre Stranden Tollefsen, upplýsingafulltrúi Amnesty í Noregi, í samtali við NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert