Sjóræningjar snúa aftur í Karíbahafið

Skólaskip frá Chile á siglingu í Karíbahafinu. Sjóránum hefur fjölgað …
Skólaskip frá Chile á siglingu í Karíbahafinu. Sjóránum hefur fjölgað mikið á svæðinu, ekki hvað síst í nágrenni Venesúela þar sem spilltir embættismenn taka jafnvel þátt í ránunum. AFP

Áhöfn fiskiskipsins Asheena hafði litlar áhyggjur þegar hún sá annað skip birtast við sjóndeildarhringinn. Þeir spáðu lítið í það þó að skipið nálgaðist þá sífellt meira. „Við vorum að leita að fiskinum okkar eins og venjulega og töldum þá vera að veiða líka,“ segir Jimmy Lalla, einn skipverja, við Washington Post. Asheena var við veiðar úti fyrir ströndum Trinidad ekki langt frá Venesúela.

Lalla minnist þess að hafa velt því fyrir sér hvort hitt skipið þyrfti aðstoðar við er það sigldi upp að þeim. Síðan stökk beinaber maður um borð og hrópaði á þá á spænsku og veifaði skammbyssu. „Þá vissum við það,“ segir hann. „Þetta voru sjóræningjar.“

Öldum eftir að fallbyssur Svartskeggs þögnuðu eru sjóræningjar nú snúnir aftur í Karíbahafið. Efnahags- og stjórnmálakreppa í ríkjum á borð við Venesúela, Níkaragva og Haítí hefur leitt til stjórnleysis og aukinnar glæpatíðni. Með sívaxandi lögleysu segja sérfræðingar nú að vissir staðir í Karíbahafinu sé hættulegri viðkomustaðir en þeir hafa verið árum saman.

Njóta aðstoðar spilltra embættismanna

Glæpir eru þannig oft sagðir framdir með aðstoð spilltra embættismanna, ekki hvað síst í hafinu úti fyrir ströndum Venesúela.

„Þetta er glæpaóreiða,“ segir Jeremy McDermott, aðstoðarforstjóri Insight Crime-samtakanna, sem rannsaka glæpi í Suður-Ameríku og Karíbahafinu. Segir hann ástandinu úti fyrir ströndum Venesúela best lýst þannig að þar sé hver sjálfum sér næstur.

Ekki eru til ítarleg gögn um sjórán á svæðinu, önnur en tveggja ára rannsókn sem samtökin Oceans Beyond Piracy unnu að. Þá var 71 sjórán skráð á svæðinu í fyrra og er það 163% aukning frá árinu á undan. Meðal skráðra atvika eru rán á kaupskipum og árásir á snekkjur.

Helltu olíu yfir áhöfnina og beittu sveðjum

Í apríl réðust grímuklæddir menn um borð í fjögur fiskiskip frá Guyana um 30 mílur úti fyrir strönd landsins. Heitri olíu var hellt yfir áhöfnina, að sögn þeirra sem lifðu af, sveðjum var beitt, mönnunum var því næst kastað fyrir borð og skipin tekin. Af þeim 20 sem um borð voru lifðu aðeins 5 af. Hinir lifðu ekki af og hafa ekki allir fundist.

David Granger, forseti Guyana, fordæmdi árásirnar og sagði þær „blóðbað“. Hafa yfirvöld í landinu talið sjóránin kunna tengjast ofbeldi glæpagengja í nágrannaríkinu Súrínam.

„Þeir sögðu að þeir ætluðu að taka bátinn og að allir ættu að stökkva fyrir borð,“ sagði Deonarine Goberdhan, einn þeirra sem lifði af.

Hann var barinn og því næst kastað fyrir borð. „Ég reyndi að halda höfðinu uppi úr sjónum þannig að ég gæti andað. Ég drakk mikið af saltvatni, horfði á stjörnurnar og tunglið og bað og vonaði.“

Grípa til örvæntingarfullra aðgerða

Fréttir hafa borist af sjóránum sl. 18 mánuði í nágrenni Hondúras, Níkargva, Haítí og St. Lucia. Hvergi hefur aukningin þó verið sambærileg og úti fyrir ströndum Venesúela að sögn sérfræðinga.

Efnahagskreppa í Venesúela hefur leitt til milljón prósenta verðbólguaukingar og gert matvæli og lyf að lúxusvarningi. Vannæring færist sífellt í aukana, sjúkdómar breiðast hratt út og vatnsveitu- og orkukerfi landsins er að gefa sig vegna skorts á þjálfuðu starfsfólki og varahluta.

Lögreglu- og hermenn yfirgefa nú stöður sínar þar sem launaseðlar þeirra eru nær verðlausir og undir stjórn Nicolas Maduros forseta hefur spilling og kúgun aukist.

Washington Post segir aðstæðurnar í landinu slíkar að sumir grípi nú til örvæntingarfullra aðgerða.

Hefur blaðið eftir einum hafnarstarfsmanni að starfsmenn strandgæslunnar hafi farið um borð í skip sem liggja við bryggju og krafist þar matar og fjármuna. Kaupskip leggi nú sífellt fjær strönd landsins og slökkvi jafnvel á vélum sínum og ljósabúnaði að nóttu til að sjást ekki.

Sómalskir sjóræningjar með gísla sína. Sérfræðingar óttast að ástandið í …
Sómalskir sjóræningjar með gísla sína. Sérfræðingar óttast að ástandið í Karíbahafinu fari að minna á ástandið úti fyrir Sómalíu. Ho

Vilja stundum bara skipta á mat 

Íbúar nágrannaeyjunnar Trinidad og Tobago segja smygl og sjórán færast í vöxt og að því fylgi aukið ofbeldi. „Stundum vilja Venesúelabúar líka bara skipta á byssum og dýrum fyrir matvæli,“ sagði einn fiskimaður.

Stjórnarandstaðan í Trinidad og Tobago segir sjálfvirkum vopnum í landinu hafa fjölgað undanfarið vegna þessa, sem leiði til hærri morðtíðni.

„Þetta minnir mig á hvernig þetta byrjaði allt úti fyrir ströndum Austur-Afríku,“ segir Roodal Moonilal, þingmaður stjórnarandstöðuflokksins United National Congress party, og vísar þar til sjónrána úti fyrir ströndum Sómalíu.  „Það sem við erum að sjá – sjónránin, smyglið, þetta er afleiðing stjórnmála- og efnahagshruns í Venesúela.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert