Heræfingum á Kóreuskaga ekki lengur frestað

Greint var frá ákvörðuninni á blaðamannafundi í dag.
Greint var frá ákvörðuninni á blaðamannafundi í dag. AFP

Bandaríkin ætla ekki lengur að fresta heræfingum á Kóreuskaganum, en ákvörðun var tekin um að fresta heræfingum á svæðinu um óákveðinn tíma eftir fund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, 12. júní.

Með því vildu Bandaríkjamenn sýna að þeim væri alvara með því að virða samkomulag sem leiðtogarnir gerðu um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Við tókum ákvörðun um að fresta nokkrum stórum heræfingum til að sýna að okkur væri alvara með samkomulaginu,“ sagði Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í dag. „Nú höfum við ekki í hyggju að fresta fleiri æfingum.“

Mattis sagði hins vegar ekkert um það hvernig skipulagi heræfinga á svæðinu yrði háttað, eða hvort þær væru yfir höfuð á döfinni. Þessar heræfingar hafa hins vegar vakið mikla reiði hjá stjórnvöldum í Norður-Kóreu.

„Við erum ekki að hefja æfingar að nýju núna,“ sagði Mattis jafnframt. „Við ætlum að sjá hvernig samningaviðræður þróast og taka ákvarðanir með það að leiðarljósi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert