Lítið sem ekkert eftir af safninu

Menningarmálaráðherra Brasilíu segir að lítið sem ekkert sé eftir af þjóðminjasafni landsins og þeim sýningargripum sem þar voru eftir hinn gríðarlega eldsvoða sem þar varð í gærkvöldi.

„Tjónið er óbætanlegt. Menningin syrgir. Þjóðin syrgir,“ skrifaði Sergio Sa Leitao á Twitter.

Luiz Fernando Dias Duarte, aðstoðarsafnstjóri safnsins, er afar óánægður með þann „skort á athygli“ sem safnið hafi fengið í gegnum tíðina frá brasilískum stjórnvöldum.

Hann segir að safnið, sem áður var opinbert húsnæði portúgölsku konungsfjölskyldunnar, hafi aldrei fengið nægan stuðning.

„Fyrir mörgum árum börðumst við við margar ríkisstjórnir til að fá nægilegt fjármagn til að geta varðveitt á almennilegan hátt það sem eyðilagðist í dag,“ sagði Dias Duerte við blaðamenn.

Á meðal muna í safninu voru egypskir og grísk-rómverskir listmunir úr fornöld, auk 12 þúsund ára beinagrindar konu, Luziu, sem er sú elsta sem hefur fundist í Ameríku. 

Einnig var í safninu stærsti loftsteinn sem hefur uppgötvast í Brasilíu, 5,3 tonna þungur, og beinagrind risaeðlu.

Fjölmarga muni sem spanna fjögurra alda tímabil, allt frá því Portúgalar komu til landsins á 14. öld þar til brasilíska lýðveldið var stofnað 1889, var þar einnig að finna.

Lögreglumaður kemur í veg fyrir að almenningur komist nær byggingunni.
Lögreglumaður kemur í veg fyrir að almenningur komist nær byggingunni. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert