Barnier býður Bretum fríverslun

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins.
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið hefur varað Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við því að tillaga hennar að samningi um útgöngu landsins úr sambandinu sé „dauð“ og hvatt hana til þess að semja um viðtækan fríverslunarsamning þess í stað.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að þetta hafi komið fram í máli Michels Barniers, aðalsamningamanns Evrópusambandsins, á fundi í Brussel með breskri þingnefnd sem fjallar um útgöngu Bretlands úr sambandinu. Heimildarmenn blaðsins eru þingmenn úr röðum breska Íhaldsflokksins, sem sátu fundinn.

Barnier er sagður hafa sagt á fundinum að tillaga May, sem kennd hefur verið við sveitasetur hennar Chequers, væri óviðunandi. Hann hefur áður sagt að ástæða þess væri einkum sú að samkvæmt tillögunni væri gert ráð fyrir að Bretland yrði að hluta þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins en að hluta utan hans.

Samþykkt samnings á grundvelli tillögu May gæti þýtt endalok innri markaðarins og jafnvel Evrópusambandsins í heild enda myndu þá önnur ríki gera kröfu um að geta valið hverju þau tækju þátt í á innri markaðinum og hverju ekki. 

Meiri líkur á samningi en haldið hafi verið fram

Haft er eftir John Whittingdale, þingmanni Íhaldsflokksins, að Barnier hafi lagt fram sem annan kost fríverslunarsamning sem hann væri að vinna að og væri byggður á fríverslunarsamningi Evrópusambandsins við Kanada.

Hins vegar væri til viðbótar einnig gert ráð fyrir nánu samstarfi Bretlands og Evrópusambandsins á sviði öryggismála og gagnkvæmri viðurkenningu staðla. Barnier sagði einnig nýverið að hann væri reiðubúinn að bjóða Bretum viðskiptasamning sem engu öðru ríki utan sambandsins hefði áður staðið til boða.

Whittingdale sagði hugmyndir Barniers þannig ekki ólíkar þeim sem margir þingmenn Íhaldsflokksins hefðu lagt áherslu á sem að hans mati benti til þess að líkurnar á að landa samningi við Evrópusambandið væru miklu meiri en haldið hafi verið fram. Chequers-tillaga forsætisráðherrans ætti ekki marga vini utan ríkisstjórnarinnar.

Haft var einnig eftir Jacob Rees-Mogg, áhrifamiklum þingmanni Íhaldsflokksins sem einnig sat fundinn, að harðir stuðningsmenn útgöngu Bretlands ættu meiri samleið með Barnier en bresku ríkisstjórninni í þessu máli. Þeir væru sammála um að Chequers-tillagan væri „rusl“ og leggja ætti áherslu á viðtækan fríverslunarsamning.

Heimildarmenn Daily Telegraph úr röðum embættismanna Evrópusambandsins hafa staðfest að Barnier hafi lýst sig andsnúinn ýmsum hlutum Chequers-tillögunnar og lagt fram ýmsa aðra valkosti, þar á meðal fríverslunarsamning í anda samnings sambandsins við Kanada.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Byggingaverktakar - Byggingastjórn - Meistarar - Eignaskiptayfirlýsingar
Byggingaverktakr - Byggingastjórn - Húsasmíðameistari - Eignaskiptayfirlýsingar ...
Leysiboy til sölu.
Leysiboy stóll til sölu kr.17,000,- uppl. 8691204....
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Hornborð til sölu ódýrt.
Hornborð 65x65 cm. Hæð 45 cm. Vel með farið kr. 900.- Er í Garðabæ s: 8691204...