Þurfti að standa í lest og gefa brjóst

Hitchens segir að henni hafi liðið verulega illa þar sem …
Hitchens segir að henni hafi liðið verulega illa þar sem hún stóð í lestinni. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Breskri móður, Kate Hitchens, blöskraði þegar enginn bauðst til að standa upp fyrir henni í fullri lest þar sem hún stóð og reyndi að gefa sex mánaða syni sínum brjóst.

Hún ákvað að deila reynslu sinni í pistli á Facebook og Instragram og biðlaði til fólks að vera aðeins vingjarnlegra við náungann, sérstaklega þegar augljóst væri að einhver væri í vandræðum. „Ég hefði getað beðið um sæti en ég á ekki að þurfa þess,“ skrifaði hún meðal annars í pistli sínum sem BBC greinir frá.

„Hvernig er heimurinn orðinn ef móðir þarf að standa í lest á ferð og reyna að gefa spriklandi og grátandi 10 kílóa barni brjóst?“ spurði Hitchens, sem heldur úti vinsælu bloggi þar sem hún skrifar meðal annars um barnauppeldi.

„Þetta snýst ekki bara um að mér hafi þótt þetta erfitt því ég var að gefa honum brjóst, heldur var enginn sem bauðst til að standa upp fyrir móður með ungbarn í fanginu á meðan lestin keyrði framhjá þremur biðstöðvum. Ég ætti ekki að þurfa að biðja um sæti.“

Hún segist hafa orðið bæði vandræðaleg og hissa. Yfirleitt reyni hún að láta lítið fyrir sér fara þegar hún gefi brjóst á almannafæri, en þarna hafi ekki farið á milli mála hvað hún var að gera.

„Mér leið líkamlega illa þar sem ég hafði ekkert að halda í og Charlie var spriklandi meðan lestin var á fullri ferð. Þegar ein almennileg kona stóð svo upp fyrir mér settist önnur strax í sætið, stakk heyrnartólum í eyrun og lokaði augunum.“

Hitchens tók fram að málið snerist ekki að nokkru leyti um hvort brjóstagjöf eða pelagjöf væri betri, heldur eingöngu um að fólk sýndi almenna kurteisi. „Ef ég sæi að einhver ætti í vandræðum, hvort sem viðkomandi væri með barn, þunga poka eða stafla af bókum í fanginu, myndi ég bjóða honum sætið mitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka