Umdæmið á við tvö og hálft Ísland

Pursell horfir yfir umferð bíla sem koma norður í umdæmið …
Pursell horfir yfir umferð bíla sem koma norður í umdæmið hans frá Suður-Ástralíu. AFP

Að vera eini lögreglumaðurinn í heilu umdæmi gæti eflaust verið sumum ofviða, og hvað þá ef umdæmið þekur svæði á við tvö og hálft Ísland. Stephan Pursell kvartar þó ekki undan starfinu sínu, en hann sér um að reka látlausa lögreglustöð í smábænum Birdsville í Ástralíu og er þar með eini vörður laganna á gríðarstóru svæði í óbyggðum landsins.

Pursell, sem er 53 ára, viðurkennir í samtali við fréttastofu AFP að umdæmið sé „nokkuð stórt“. Segja má að vægt sé tekið til orða enda tekur það heila fjóra daga að keyra endanna á milli.

Honum líkar þó áskorunin sem fylgir vinnunni, en hann tók við starfinu fyrir tveimur árum. Flutti hann þá með konu sinni Sharon í burtu frá ströndum Queensland-fylkis og sem leið lá til Birdsville, 1.600 kílómetra inn í land.

Kameldýr, villihundar og banvænar slöngur eru meðal þess helsta sem …
Kameldýr, villihundar og banvænar slöngur eru meðal þess helsta sem rekast má á í umdæmi Pursells. AFP

Steikti egg á vélarhlífinni

Svæðið er ekki allra. Yfir daginn getur hitinn farið yfir fjörutíu gráður og sterkir vindar geta komið af stað sandstormum sem hylja sólina og myrkva umhverfið. Ryk, flugur, kameldýr, villihundar og banvænar slöngur eru á meðal þess helsta sem finna má kvikt á svæðinu.

„Þú verður að upplifa þetta til að njóta þess. Þetta er stórkostlegur staður,“ segir Pursell, sem vakti mikla athygli á alnetinu á síðasta ári vegna myndskeiðs sem sýnir hann steikja egg á vélarhlíf lögreglujeppans.

Aðstoð íbúanna skiptir sköpum

Í bænum Birdsville búa rétt rúmlega hundrað manns og eru íbúarnir umluktir endalausri auðn og sandöldum sem teygja sig út fyrir sjóndeildarhringinn í fjarska.

„Glæpir eru ekki vandamál,“ segir Pursell og bætir við að mestur hluti starfsins sé í hlutverki fyrsta viðbragðsaðila þegar slys verða.

„Helst göngum við úr skugga um að fólk komist hingað örugglega og geti komist aftur heim með öruggum hætti. Bilanir bíla, læknisfræðileg vandamál, slys – við þurfum að vera reiðubúin að bregðast við þess háttar hlutum.“

Þar sem Pursell þarf að fylgjast með svæði sem þekur 240 þúsund ferkílómetra, þar sem ferðast má í klukkustundir eða jafnvel daga án þess að rekast á annan mann, skiptir sköpum að geta notið aðstoðar íbúanna að hans sögn.

Hjúkrunarfræðingur eða bifvélavirki geta til að mynda fylgt Pursell á leið í útkall út fyrir bæjarmörkin.

Aldrei dauð stund

Forveri hans í starfi, Neale McShane, sem settist í helgan stein árið 2015 eftir að hafa þjónað Birdsville í áratug, segir að aldrei hafi verið dauð stund.

Hver einasta björgun ferðamanna krefjist ótrúlega langrar keyrslu yfir malarvegi eða sandöldur í Land Cruiser-jeppanum. Stundum taki nokkra daga að komast á vettvang.

McShane segir marga kosti fylgja starfinu.

„Þegar þú ert úti að sofa í eyðimörkinni og horfir upp í stjörnurnar, og þær virðast svo nálægar að þú gætir teygt þig upp og snert þær.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert