„Hitabeltis-Trump“ lofar breytingum

Höfuðsmaðurinn fyrrverandi Jair Bolsonaro, nýkjörinn kjörinn forseti Brasilíu, hefur lofað því að róttækar breytingar verði gerðar í Brasilíu en landið er það nýjasta til að snúa sér í átt til þjóðernispopúlisma.

Bolsonaro hefur hneykslað marga vegna stuðnings síns við pyntingarnar sem fyrrverandi hershöfðingjastjórn Brasilíu notaðist við, auk þess að láta ummæli falla sem hafa verið sögð bera vott um kvenhatur, kynþáttahatur og fordóma gagnvart samkynhneigðum. Þrátt fyrir það tókst honum að ná kjöri en kjósendur í landinu eru orðnir þreyttir á spillingu, glæpum og erfiðum efnahag.

Stuðningsmaður Bolsonaro fagnar sigrinum með brasilíska fánann í hendi og …
Stuðningsmaður Bolsonaro fagnar sigrinum með brasilíska fánann í hendi og með grímu af Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Samkvæmt opinberum tölum hlaut Bolsonaro 55,13 prósent atkvæða á móti 44,87 prósentum atkvæða hjá andstæðingi hans Fernando Haddard þegar 99,99 prósent atkvæða höfðu verið talin.

Hinn 63 ára Bolsonaro tekur við embætti 1. janúar.

„Við munum breyta örlögum Brasilíu saman,“ sagði hann í sigurræðu sinni sem var sjónvarpað í beinni útsendingu á Facebook frá heimili hans. Bolsonaro notaði samfélagsmiðilinn ótt og títt í kosningabaráttu sinni eftir að hann var stunginn í magann á kosningafundi 6. september.

Jair Bolsonaro og eiginkonan hans Michelle kyssast áður en þau …
Jair Bolsonaro og eiginkonan hans Michelle kyssast áður en þau greiða atkvæði í borginni Rio de Janeiro. AFP

Í ræðu sinni, þar sem hann sat við hliðina á eiginkonu sinni, hét hann því að stjórna landinu með því að reiða sig á Biblíuna og stjórnarskrána. „Við getum ekki haldið áfram að daðra við sósíalisma, kommúnisma, lýðskrum og öfga úr vinstri,“ sagði hann og lofaði því að vernda „stjórnarskrána, lýðræðið og frelsi“.

Bolsonaro, sem hefur verið þingmaður í langan tíma, vísaði á bug aðvörunarorðum andstæðinga sinna um að hann ætli að fikra sig í átt að einræði eftir að hafa lýst opinberlega yfir aðdáun sinni á grimmri hershöfðingjastjórn Brasilíu á árunum 1964 til 1985.

Þúsundir stuðningsmanna hans flykktust fyrir utan heimili hans í Rio de Janeiro, veifuðu brasilíska fánum og skutu flugeldum á loft.

Stuðningsmenn Jair Bolsonaro fagna.
Stuðningsmenn Jair Bolsonaro fagna. AFP

„Allt þetta fólk hérna er brjálað, það er mjög ósátt við spillinguna og glæpina og við styðjum við bakið á Bolsonaro. Fólkið hefur talað. Í fyrsta sinn finnst mér kominn stjórnmálamaður við mitt hæfi,“ sagði Andre Luiz Lobo, 38 ára viðskiptamaður, sem styður Bolsonaro þrátt fyrir að vera svartur á höfund og ásakanir um kynþáttahatur stjórnmálamannsins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hringdi í Bolsonaro og óskaði honum til hamingju með kjörið. „Báðir lýstu þeir yfir sterkum vilja sínum til að starfa saman við að bæta líf almennings í Bandaríkjunum og Brasilíu og sem leiðtogar þessara svæða, Ameríkubúa,“ sagði Sarah Sanders, talsmaður Hvíta hússins.

Bolsonaro, sem sumir hafa kallað „Hitabeltis-Trump, er mikill aðdáandi bandaríska forsetans.

Flugeldum var skotið á loft þegar sigur Bolsonaro var í …
Flugeldum var skotið á loft þegar sigur Bolsonaro var í höfn. AFP

Fernando Haddad, sem er fyrrverandi borgarstjóri í Sao Paulo, sagðist ætla að „verja réttindi og frelsi þeirra 45 milljóna manna sem kusu hann, eftir að Bolsonaro hét því seint í kosningabaráttunni að „hreinsa“ Brasilíu af vinstri „rauðum“.

„Fasistar!“ hrópuðu stuðningsmenn Haddad fyrir utan kosningaskrifstofu hans, gráti næst.

„Ég er undrandi á því að Brasilíumenn hafi kosið hatur og byssur,“ sagði Flavia Castelhanos, 31 árs, eftir að hafa þurrkað tárin af hvörmum sínum.

Fernando Haddad flytur ræðu eftir að niðurstaðan var ljós.
Fernando Haddad flytur ræðu eftir að niðurstaðan var ljós. AFP

Mark Weisbrot, sem starfar á miðstöð efnahags- og stjórnmálafræðirannsókna Í Washington, hafði þetta að segja um kjörið: „Þetta er svartur dagur fyrir Brasilíu. Lýðræði í Brasilíu er í algjörri upplausn.“

Stuðningsmenn Haddad bregðast við ósigrinum.
Stuðningsmenn Haddad bregðast við ósigrinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert