Lögreglan í London leitar að „Ross“

Maðurinn þykir nauðalíkur David Schwimmer.
Maðurinn þykir nauðalíkur David Schwimmer. Ljósmynd/Lögreglan í Blackpool

Lögreglan í London tekur núna þátt í leitinni að manni sem þykir nauðalíkur „Ross úr Friends“ en mynd úr eftirlitsmyndavél af manninum hefur farið eins og eldur í sinu um netið.

Lögreglan í Lancashire telur að maðurinn, sem er grunaður um þjófnað í borginni Blackpool, sé staddur í London.

„Við erum að vinna með samstarfsmönnum okkar í lögreglunni í London og við ætlum að hafa finna hann og handtaka,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Lancashire, að því er BBC greindi frá. 

Eftir að talað var um að maðurinn væri nauðalíkur David Schwimmer, sem lék Ross í bandarísku sjónvarpsþáttunum Friends, sendi Schwimmer frá sér grínmyndband þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu.

Lögreglan í Lancashire sagðist í síðustu viku hafa borið kennsl á manninn eftir að hafa fengið fjölda ábendinga frá almenningi vegna málsins. „Við teljum að maðurinn sem sást á myndum úr eftirlitsmyndavél sé frá London-svæðinu,“ segir hún núna.

Maðurinn er grunaður um að hafa stolið jakka, farsíma og veski á veitingastaðnum Mr. Basrai í Blackpool 20. september. Hann sást síðar á eftirlitsmyndavél halda á bjórkassa í verslun í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert