CNN í mál við Hvíta húsið

Forsetinn brást illa við fyrirspurnum blaðamanns CNN.
Forsetinn brást illa við fyrirspurnum blaðamanns CNN. AFP

Bandaríska fréttastöðin CNN hefur höfðað mál gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta og nokkru af starfsfólki Hvíta hússins vegna ákvörðunar þeirra um að meina fréttamanni þeirra, Jim Acosta, aðgang að Hvíta húsinu. 

Meðal þeirra sem kæran nær til eru forsetinn, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, og starfsmannastjóri Hvíta hússins, John Kelly.

Samkvæmt CNN braut starfsfólk Hvíta hússins á stjórnarskrárvörðum rétti Acosta með því að svipta hann blaðamannapassa sínum, sem veitti honum aðgang að forsetabústaðnum. CNN krefst þess að Acosta fái aðgang sinn aftur þegar í stað.

Acosta og Trump áttu í hörðum orðaskiptum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í síðustu viku og sagði Trump Acosta vera hræðilega manneskju. Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins hefur síðan verið ásakaður um að hafa deilt myndbandi á atvikinu sem átt hafði verið við til að láta Acosta líta illa út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert