Fleiri ráðherrar tilkynna afsögn

Esther McVey.
Esther McVey. AFP

Nokkrir ráðherrar í bresku ríkisstjórninni hafa tilkynnt Theresu May forsætisráðherra um afsögn sína í kjölfar samnings sem var samþykktur af ríkisstjórninni í gærkvöldi um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Dominic Raab.
Dominic Raab. AFP

Ráðherra Brexit-mála, Dominic Raab, tilkynnti um afsögn sína í morgun en hann segir að hann geti ekki með góðri samvisku stutt frumvarpið að samkomulagi Breta við ESB. Raab var einn þeirra sem studdu útgöngu úr ESB á sínum tíma en hann tók við embætti Brexit-ráðherra eftir að David Davis sagði af sér. Ástæðan fyrir afsögninni tengist reglugerð varðandi stjórnarfyrirkomulag á Norður-Írlandi sem kveðið er á um í drögunum að samkomulaginu. 

Fyrr í morgun tilkynnti ráðherra málefna Norður-Írlands, Shailesh Vara, um afsögn sína og Esther McVey sem er ráðherra vinnu- og eftirlaunamála, var rétt í þessu að tilkynna um að hún segði af sér. Hún er einn harðasti stuðningsmaður Brexit í ríkisstjórninni. Að hennar sögn er samkomulagið ekki í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016.

May mun kynna drögin að samkomulaginu klukkan 10:30 í breska þinginu og má búast við fjörugum umræðum.

Bætt við klukkan 10:30

Enn bætist í hóp þeirra sem segja af sér - nú hefur aðstoðarráðherra Brexit-mála, Suella Braverman, tilkynnt afsögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert