Í mál við McDonalds vegna barnamáltíða

Hamborgari frá McDonalds. Bramante er ósáttur við auglýsingar sem skyndibitakeðjan …
Hamborgari frá McDonalds. Bramante er ósáttur við auglýsingar sem skyndibitakeðjan beinir að börnum. AFP

Fjölskyldufaðir í Quebec í Kanada hefur höfðað mál gegn McDonalds-skyndibitakeðjunni vegna barnamáltíða fyrirtækisins, sem hann segir brjóta í bága við stranga löggjöf fylkisins varðandi auglýsingar ætlaðar börnum.

Happy Meal-barnamáltíðin hefur allt frá því hún leit fyrst dagsins ljós árið 1979 notið vinsælda hjá barnafólki sem sækir staðina. „Svo er hins vegar ekki með alla og sumir kanadískir foreldrar,“ skrifar BBC, „eru ósáttir með það tak sem skyndibitakeðjan hefur á maga barna þeirra.“

Antonio Bramante, sem hóf málssóknina, segir McDonalds brjóta gegn lögum Quebec sem banna að auglýsingum sé beint gegn börnum undir 13 ára aldri. Bramante, sem er þriggja barna faðir, segist sjálfur fara með börn sín að þeirra áeggjan á McDonalds um hálfsmánaðarlega. Hann áætlar að hann hafi eytt hundruðum dollara í barnamáltíðir McDonalds sem innihalda jafnan leikföng. Leikföngin tengjast oft vinsælum kvikmyndum og geta börnin safnað setti af fígúrum tengdum þeirri mynd. Segir Bramante að ein ástæða sem börn hans gefi fyrir að vilja fara á McDonalds sé að þau séu að reyna að safna fígúrunum.

Þá segir hann McDonalds beina auglýsingum sínum beint að börnunum með því að hafa leikföngin með barnamáltíðunum til sýnis í augnhæð barnanna.

„Foreldrar í dag þurfa að velja hvaða slagi þeir taka. Og hvað er auðveldast að gefa eftir með? Það er að gefa börnunum að borða,“ hefur BBC eftir lögfræðinginum Joey Zukran sem fer með málið.

Lög Quebec-fylkis varðandi auglýsingabann fyrir börn undir 13 ára aldri eru með þeim ströngustu sem vitað er um og segir Zukran McDonalds bera að hlýða þeim lögum.

Um hópmálssókn er að ræða og segir Zukran alla þá sem hafa keypt barnamáltíð í Quebec frá því lögin tóku gildi í nóvember 2013 geta tekið þátt í henni, óháð þjóðerni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert