„Við erum ekki með Obama-dómara“

Forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, John Roberts, fór hörðum orðum um ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta í dag í kjölfar þess að Trump gagnrýndi úrskurð alríkisdómara varðandi hælisleitendur og sagði Obama-dómara hafa kveðið hann upp.

„Við erum ekki með Obama-dómara eða Trump-dómara, Bush-dómara eða Clinton-dómara,“ sagði Roberts í yfirlýsingu til fjölmiðla en fátítt er að forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna bregðist við þjóðfélagsumræðunni með slíkri yfirlýsingu.

Roberts sagði bandaríska dómstóla einfaldlega vera skipaða dómurum sem legðu sig alla fram við að framfylgja réttlætinu gagnvart þeim sem kæmu fyrir þá. Dómskerfið væri sjálfstætt sem væri nokkuð sem allir ættu að þakka fyrir.

Trump hafði gagnrýnt niðurstöðu alríkisdómarans Jon Tigar í San Francisco sem kom tímabundið í veg fyrir að ríkisstjórn hans gæti neitað fólki um hæli sem kæmi ólöglega til Bandaríkjanna með því að leggja lögbann á það.

Trump lýsti því yfir fyrr í mánuðinum að einungis þeir sem kæmu löglega til landsins gætu sótt um hæli. Forsetinn gagnrýndi niðurstöðuna í gær og sagði hana skammarlega. Sagði hann Tigar vera Obama-dómara og vísaði til forvera Trumps, Baracks Obama.

John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, og Donald Trump Bandaríkjaforseti þegar …
John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, og Donald Trump Bandaríkjaforseti þegar Trump sór embættiseið sinn í lok janúar 2017. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert