Vilja nefna götu í höfuðið á Khashoggi

Jamal Khashoggi fyrir fjórum árum.
Jamal Khashoggi fyrir fjórum árum. AFP

Hugmyndir eru uppi um að endurnefna götu fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í borginni Washington í höfuðið á blaðamanninum sáluga Jamal Khashoggi.

Ef borgarráð samþykkir þessar hugmyndir mun gatan heita Jamal Khashoggi Way.

Khashoggi, sem bjó í Bandaríkjunum, var myrtur fyrir utan ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í október.

Eftir að hafa upphaflega neitað aðild að morðinu, hafa stjórnvöld í Sádi-Arabíu viðurkennt að Khashoggi hafi verið drepinn inni á ræðismannsskrifstofunni en þau segjast engu að síður ekki hafa komið nálægt morðinu.

„Við leggjum til að gatan við sendiráð Sádi-Arabíu verði endurnefnd Jamal Khashoggi Way til að minna ráðamenn Sádi-Arabíu daglega á að svona morð eru algjörlega óásættanleg. Einnig viljum við lýsa yfir stuðningi Washington við frelsi fjölmiðla,“ sagði í undirskriftasöfnun sem er hafin vegna málsins.

Svipað var gert fyrir utan rússneska sendiráðið í Washington fyrr á þessu ári. Þar var gata nefnd í höfuðið á Boris Nemtsov, sem hafði gagnrýnt forsetann Pútín harðlega, en hann var myrtur í Moskvu árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert