Fimm saknað eftir árekstur

AFP

Fimm bandarískra hermanna er saknað og er þeirra leitað við strönd Japans, samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti Japans. Tvær herflugvélar brotlentu eftir árekstur þeirra við eldsneytisáfyllingu seint í gærkvöldi.

Alls voru sjö um borð í flugvélunum tveimur og hafa tveir þegar verið fluttir á sjúkrahús. Upplýst hefur verið um að ástand annars þeirra sé stöðugt en ekki er vitað um líðan þess sem verið var að flytja á sjúkrahús með þyrlu. 

Bæði Bandaríkjaher og japanski herinn eru að leita bæði úr lofti og á sjó. Vonast er til þess að þeir finnist allir á lífi.

Um reglubundið æfingaflug var að ræða þegar slysið varð. Tveir voru um borð í F/A-18-orrustuþotunni en fimm voru um borð í KC-130-eldsneytisflutningavélinni þegar slysið varð í um 100 km fjarlægð frá Muroto-höfða. Þeir sem hefur verið bjargað voru báðir um borð í orrustuþotunni. 

mbl.is