Skúbbuðu hernaðarleyndarmáli á forsíðu

Nígerískir hermenn við heiðursathöfn í heimalandinu fyrir skemmstu. Fyrirhuguðum aðgerðum …
Nígerískir hermenn við heiðursathöfn í heimalandinu fyrir skemmstu. Fyrirhuguðum aðgerðum þeirra gegn Boko Haram var skúbbað á forsíðu dagblaðsins Daily Star. AFP

Nígeríski herinn er sakaður um að ráðast gegn frjálsum fjölmiðlum, í kjölfar þess að hermenn réðust inn á ritstjórnarskrifstofur fjölmiðils þar í landi, tóku tvo blaðamenn höndum og lögðu hald á tölvur vegna forsíðufréttar um fyrirhugaðar aðgerðir hersins gegn hryðjuverkahópnum Boko Haram.

Fjölmiðillinn Daily Trust greindi frá fyrirhuguðum aðgerðum hersins gegn Boko Haram í forsíðufrétt í lok síðustu viku, við litla kátínu yfirmanna hersins, sem héldu að þeir væru að skipuleggja leynilegar aðgerðir.

Sani Usman talsmaður hersins segir að brugðist hafi verið við með þessum hætti þar sem dagblaðið hefði stefnt þjóðaröryggi í hættu með því að birta nákvæmar upplýsingar um atlöguna gegn hryðjuverkahópnum, en herinn þusti inn á skrifstofur Daily Trust í þremur borgum landsins, Maidugiri, höfuðborginni Abuja og Lagos.

Hann réttlætti aðgerðirnar gegn fjölmiðlinum og segir að dagblaðið hafi ljóstrað upp um leynilegar hernaðarupplýsingar, sem hafi gefið liðsmönnum Boko Haram viðvörun, eyðilagt þær aðgerðir sem voru skipulagðar og stefnt lífi hermanna í augljósa hættu. Í yfirlýsingu frá talsmanninum í gær var það þó orðað sem svo, að herinn hefði einungis „viljað bjóða“ blaðamönnunum sem skúbbuðu hernaðarleyndarmálinu að ræða þær afleiðingar sem birting fréttarinnar hefði haft.

Mannir Dan-Ali, ritstjóri Daily Star, fordæmir aðfarir hersins og kallar þær ólöglegar, en Daily Star hefur um nokkurt skeið sætt aðkasti frá stjórnvöldum fyrir að birta greinar sem fjalla um aðgerðir hersins með gagnrýnum hætti.

Amnesty International í Nígeríu og Alþjóðleg samtök um vernd blaðamanna (Committee to Protect Journalists) taka í sama streng og ritstjóri blaðsins, en Nígería er í 119. sæti á lista samtakanna Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi.

mbl.is