Valdaránstilraun stendur yfir í Gabon

Liðsforinginn Kenny Ondo Obiang færði gabonsku þjóðinni þau tíðindi í …
Liðsforinginn Kenny Ondo Obiang færði gabonsku þjóðinni þau tíðindi í morgunsárið að herinn ætlaði að koma veikum forsetanum frá völdum. AFP

Hermenn í Gabon standa nú fyrir valdaránstilraun, sem er að þeirra sögn sprottin af því að forseti landsins hafi ekki heilsu til þess að sinna skyldum sínum. Skriðdrekar og brynvarðir bílar eru á götum úti í höfuðborginni Libreville.

Hópur hermanna tók yfir ríkisútvarp Afríkuríkisins í nótt og las upp yfirlýsingu til landsmanna kl. 4:30 að staðartíma, þar sem fram kom að þeir vildu koma á fót þjóðarráði til þess að endurreisa lýðræði í Gabon. Á vef Guardian er haft eftir heimildarmanni að skothvellir hefðu heyrst í grennd við húsakynni ríkisútvarpsins.

Í yfirlýsingunni sem hermennirnir lásu upp kom fram að í dag hefði herinn ákveðið að standa með fólkinu til þess að „bjarga Gabon frá glundroða“ og íbúar voru hvattir til að rísa upp.

„Ef þú ert að borða, hættu; ef þú ert að drekka, hættu; ef þú ert sofandi, vaknaðu. Vektu nágranna þína, rísið upp í sameiningu og takið völdin á götunum,“ sagði Kelly Ondo Obiang, hermaðurinn sem færði þjóðinni skilaboð um valdaránið. Hann er leiðtogi hreyfingar innan hersins sem kennir sig við þjóðrækni.

Ali Bongo, forseti landsins, hefur ekki verið í Gabon síðan í nóvember, en hann fékk heilablóðfall í ferð sinni til Sádi-Arabíu í október og fór til Marokkó í nóvember til þess að fara í endurhæfingu. Í nýársávarpi sínu til landsmanna sagðist hann vera á batavegi, og virtist ágætlega á sig kominn, þrátt fyrir að vera þvoglumæltur á köflum, samkvæmt frétt Guardian.

Ali Bongo, forseti Gabon (t.h.), hefur verið í endurhæfingu vegna …
Ali Bongo, forseti Gabon (t.h.), hefur verið í endurhæfingu vegna heilablóðfalls í Marokkó undanfarna mánuði. Hér er hann með Mohamed, konungi Marokkó. AFP

Hermennirnir sem standa að valdaráninu sögðu þó í yfirlýsingu sinni í nótt að nýársávarpið hefði styrkt þá í þeirri trú að forsetinn gæti ekki sinnt skyldum sínum við gabonsku þjóðina.

Ali Bongo tók við embætti árið 2009 af föður sínum, en Bongo-fjölskyldan hefur haldið um stjórnartaumana í Gabon í fimm áratugi. Landið er ríkt af olíuauðlindum. Búist er við því að forsetinn sendi frá sér yfirlýsingu vegna valdaránstilraunarinnar innan skamms.

Frétt BBC

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert