Castro býður sig fram til forseta

Julián Castro tilkynnti um framboð sitt á útifundi í San …
Julián Castro tilkynnti um framboð sitt á útifundi í San Antonio í Texas, þar sem hann var áður borgarstjóri. AFP

Julián Castro, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama, ætlar að gefa kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Frá þessu greindi hann í dag og er hann annar demókratinn sem tilkynnir formlega um framboð á eftir John Delaney, fyrrverandi þingmanni.

Castro tilkynnti um framboð sitt á útifundi í San Antonio í Texas, þar sem hann var áður borgarstjóri. Með framboði sínu vill hann vekja von í brjóstum Bandaríkjamanna og hvetja til fjölbreyttra stjórnmála á tímum þar sem Bandaríkjamenn eru fastir í neikvæðri umræðu um innflytjendamál og landamæravörslu.

„Jú, við verðum að gæta öryggis á landamærunum, en það er til göfug og mannúðleg leið til að ná því. En öryggi okkar verður ekki tryggt með því að geyma börn í búrum,“ sagði Castro á fundinum í dag.

Meðal áherslumála í baráttunni verða ódýrara háskólanám, víðtækari heilsugæsla og málefni eldri borgara, að því er fram kemur í umfjöllum Washington Post um framboð hans.

Castro, sem er 44 ára, hefur elngi verið talin vonarstjarna Demókrataflokksins en hann mun að öllum líkindum þurfa að berjast um tilnefningu flokksins við metfjölda frambjóðenda. Tulsi Gabbard, fulltrúadeildarþingmaður frá Havaí, til­kynnti í viðtali á CNN í dag að hún mun gefa kost á sér í próf­kjöri Demó­krata­flokks­ins og þá hefur Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, lýst því yfir að hún hafi áhuga á að skoða framboð.

Fleiri nöfn hafa einnig borið á góma, svo sem Bernie Sanders sem þekkir forvalið líklega manna best, Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður frá Kaliforníu, og Beto O´Rourke, fulltrúardeildarþingmaður frá Texas. Þá er Joe Biden, varaforseti Obama, einnig talinn líklegur frambjóðandi.

Fjöldi fólks mætti á framboðsfund Castro í San Antonio í …
Fjöldi fólks mætti á framboðsfund Castro í San Antonio í Texas í dag. AFP
mbl.is