„Tilbúinn og viljugur að fara í stríð“

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, með eiginkonu sinni Cilia Flores ræðir …
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, með eiginkonu sinni Cilia Flores ræðir við stuðningsmenn sína. AFP

Í skítugri byggingu í einu úthverfa Caracas, höfuðborgar Venesúela, lifir minning Hugo Chávez góðu lífi. Stytta af þessum fyrrverandi forseta Venesúela klædd í einkennisbúning hersins stendur á áberandi stað í horni stofunnar líkt og hún bjóði alla sem inn ganga velkomna.

Mynd af Chávez brosandi hangir einnig á vegg sem málningin er tekin að flagna af og fáni Venesúela — gulur, blár og rauður —  hangir yfir fundarborðinu þar sem Subero og menn hans dvelja löngum stundum.

BBC segir tengsl Suberos, sem er ekki hans rétta nafn, við Chávez ná áratugi aftur í tímann. Subero, sem er 47 ára aðstoðarvarðstjóri á eftirlaunum tók þátt í valdaránstilraun Cháves 4. febrúar 1992 til að koma þáverand forseta landsins, Carlos Andrés Pérez, frá völdum. Tilraunin mistókst og Subero, Chávez og ýmsir aðrir voru dæmdir til nokkurra ára fangelsisvistar. Tryggð Suberos í garð Chávez hefur þó aldrei dofnað.

Verndarar uppreisnar Chávezar

Subero fer nú fyrir hópi svo nefndra „colectivos“, eða samstarfshópi. Tugir slíkra hópa eru starfandi í landinu og líta á sig sem verndara uppreisnar Chávezar. Þeir hafa líka heitið því að verja arftaka hans Nicolás Maduro í þeim erfiðleikum sem hann stendur nú frammi fyrir.

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðu Venesúela sem lýsti sjálfan sig forseta …
Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðu Venesúela sem lýsti sjálfan sig forseta til bráðabirgða, flytur hér ræðu á mótmælafundi gegn Maduro í Caracas. AFP

Þær raddir sem krefjast nýrra kosninga í landinu verða sífellt háværari og Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og forseti þingsins hefur lýst sig forseta til bráðabirgða, þar til kosið verði að nýju. Nýtur hann til þess stuðnings yfir 40 ríkja beggja vegna Atlantsálna.

Subero og aðrir liðsmenn í colectivo hópinum hans eru hins vegar reiðubúnir að verja Maduro, sem gegnt hefur forsetaembættinu frá 2013. „Ég er tilbúinn að berjast fram í rauðan dauðann,“ hefur BBC eftir honum.

Sakaðir um að ráðast gegn gagnrýnendum stjórnvalda

Colectivos hóparnir voru stofnaðir á forsetaárum Chávezar og nutu stuðnings stjórnvalda er þeir spruttu upp í bæjum og borgum víða um land, en þeir aðstoðuðu m.a. við að koma á hjálparstarfi í landinu. Talið er að nokkur þúsund Venesúelabúar tilheyri þessum hópum. 

Sumir, m.a. stjórnarandstaðann og mannréttindasamtök, hafa hins vegar sakað colectivos um að gegna hlutverki eins konar hersveita og segja þá nota afl sitt til að ná stjórn á hverfum. Þá eru þeir sakaðir um að ráðast á þá sem eru gagnrýnir í garð stjórnarinnar, mótmælendur og fjölmiðlamenn.

Mikil efnahagskreppa hefur verið í Venesúela undanfarin ár og hefur óánægja með Maduro farið vaxandi í kjölfar óðaverðbólgu, skorts á matvælum og lyfjum.  BBC segir marga óttast að ofbeldið eigi eftir stigmagnast áfram og að colectivos muni þá, ásamt öryggislögreglu og hermönnum hliðhollum forsetanum, eiga stóran þátt í að halda aftur af mótmælendum.

Stuðningsmenn Maduros veifa hér fánum á fundi í Caracas, þar …
Stuðningsmenn Maduros veifa hér fánum á fundi í Caracas, þar sem forsetinn hvatti Bandaríkin til að hætta afskiptum sínum af innanríkismálum landsins. AFP

Grípum til vopna þegar stundin kemur

Á einni viku í síðasta mánuði voru 40 manns hið minnsta voru drepin í Venesúela og segja Sameinuðu þjóðirnar sveitir hliðhollar Maduro bera ábyrgð á flestum dauðsfallanna. 

Subero segir innrás erlendra ríkja hins vegar vera hina raunverulegu krísu. Maduro og stuðningsmenn hans fullyrða þetta gjarnan og segja innrás í undirbúningi. BBC segir stjórnina stöðugt reyna að kynda undir óttanum um innrás, þó engin slík tilraun hafi verið gerð.

„Ég er tilbúinn og viljugur að fara í stríð,“ segir Subero.

Í herberginu við hliðina á horfir Jorge Navas á ríkisrásina sem fjallar mikið um Maduro og stjórn hans. Á skjánum blasir líka við Diosdado Cabello, einn helsti aðgerðarsinni Chavezar, og varar stuðningsmenn við mögulegum aðgerðum annarra ríkja í landinu.

„Við erum varaliðið og þegar stundin kemur þá grípum við til vopna,“ segir Navas þrátt fyrir þá fullyrðingu flestra colectivos liðsmanna að þeir eigi engan þátt í vopnuðum ofbeldisaðgerðum.

Mótmælendur á götu í Cucuta í Venesúela, sem eru ósáttir …
Mótmælendur á götu í Cucuta í Venesúela, sem eru ósáttir við ákvörðun Maduros að hleypa flutningabílum með hjálpargögn ekki inn í landið. AFP

Venesúela hið nýja Víetnam

Fyrr í vikunni sagðist Maduro ekki geta útilokað að það kæmi til borgarastyrjaldar í Venesúela og varaði hann Donald Trump Bandaríkjaforseta við að með stuðningi sínum við Guaidó ætti hann á ættu að endurtaka mistök Víetnamsstríðsins.

„Hver segir að Venesúela geti ekki orðið hið nýja Víetnam,“ segir Navas, en Guaidó hefur sagt hótanir um borgarastyrjöld vera „tilbúning“.

Sombra, sem tilheyrir öðrum colectivo hópi en þeir Subero og Navas, segir vandann sem Venesúelabúar standi nú frammi fyrir vera þann að íbúar átti sig ekki á þeirri miklu arfleifð sem „eilífi leiðtoginn“ og þar á hann við Chavez skildi eftir. Sjálfur er hann þess fullviss að Maduro sé réttkjörinn forseti, þó margir hafi dregið lögmæti kosninganna á síðasta ári í efa. „Við viljum leysa þetta með samræðum,“ segir hann. „En ég myndi þó að sjálfsögðu fórna lífi mínu fyrir byltinguna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert