Notuðu snáka til að hræða þjófinn

Indónesíska lögreglan notaði snák til að hræða meintan þjóf í …
Indónesíska lögreglan notaði snák til að hræða meintan þjóf í von um að fá hann til að játa. AFP

Indónesíska lögreglan hefur nú beðist afsökunar á að nota snáka til að skjóta manni sem grunaður var um þjófnað skelk í bringu. BBC greinir frá.

Myndband af atvikinu birtist á netinu og sjást lögreglumenn þar hlæja þegar sá sem leiðir yfirheyrslu yfir manninum, sem er í handjárnum, leggur snák yfir hann. Atburðurinn átti sér stað í austurhluta Papúa-héraðs og er maðurinn sagður vera grunaður um stuld á farsímum.

Yfirmaður lögreglunnar, Tonny Ananda Swadaya, sagði þetta ekki samræmast háttalagi lögreglu. Hann varði engu að síður athæfið með því að segja snákinn taminn og ekki eitraðan. „Við höfum þó gripið til aðgerða gegn þeim,“ sagði Swadaya og bætti við að lögreglumennirnir hefðu þó ekki barið hinn grunaða.

Þeir hefðu hins vegar að eigin frumvæði reynt að þvinga fram játningu frá manninum.

Á myndbandinu heyrist rödd hóta því að setja snákinn upp í munn mannsins og upp buxnaskálmina hjá honum.

Frásagnir af mannréttindabrotum eru tíðar í Papúa, sem er ríkt af náttúruauðlindum og hafa sjálfstæðissinnar í héraðinu lengi reynt að ná fram sjálfstæði frá indónesískum yfirvöldum.

Það var mannréttindalögfræðingurinn Veronica Koman sem vakti athygli á atvikinu á Twitter er hún greindi frá því að lögregla hefði sett snák í klefa hjá einum sjálfstæðissinnanna.

mbl.is