Trump við Kaliforníu: Skilið lestarsjóðnum!

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að Kaliforníuríki skili milljörðum dollara af …
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að Kaliforníuríki skili milljörðum dollara af styrktarfé sem farið hefur í framkvæmdir við háhraðalestakerfi. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti krefst þess nú að stjórnvöld í Kaliforníuríki endurgreiði milljarða dollara í alríkissjóði af fé sem átti að fara í lagningu háhraðalestakerfis.

BBC segir stjórn ætla að hætta við greiðslu 929 milljóna dollara styrktargreiðslu vegna þess sem forsetinn segir vera „mislukkað“ verkefni, en þetta er um fjórðungur þeirra fjármuna sem fara áttu í framkvæmdina.

Demókratinn og ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, segir um „pólitíska refsingu“ að ræða vegna þess að Kalifornía var eitt þeirra ríkja sem fóru fyrir ákæru á hendur Trump vegna boðunar hans á neyðarlögum.

BBC segir stjórn Trumps hafa tilkynnt í gær að hún væri að skoða að hætta við greiðslu styrksins, sem og að krefjast endurgreiðslu á þeim 2,5 milljörðum dollara sem Kaliforníuríki hefur þegar eytt í verkefnið.

Þá húðskammaði Trump ráðamenn Kaliforníuríkis á Twitter í dag vegna framkvæmdanna. „Skilið alríkisstjórninni þeim milljörðum dollara sem er búið að eyða í vitleysu,“ skrifaði forsetinn.

Nokkrir dagar eru síðan samband 16 ríkja, undir forystu Kaliforníu, tilkynnti að það ætlaði í mál við Trump vegna „misnotkunar hans á forsetavaldinu“ í tengslum við byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Öll ríkjanna 16 utan eitt eru undir stjórn demókrata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert