Fékk 5 ára dóm en sat inni í tæp sex

Mahmoud Abu Zeid var glaður í bragði þegar ljósmyndari AFP …
Mahmoud Abu Zeid var glaður í bragði þegar ljósmyndari AFP hitti hann í Kaíró í morgun. AFP

Egypski ljósmyndarinn Mahmoud Abu Zeid var látinn laus úr fangelsi í dag eftir að hafa setið á bak við lás og slá í tæp sex ár. Hann var handtekinn á sínum tíma fyrir að sinna starfi sínu, það er að mynda blóðbaðið sem fylgdi átökum í landinu árið 2013.

Zeid, sem yfirleitt gengur undir nafninu Shawkan, hlaut í fyrra frelsisverðlaun UNESCO. Shawkan var handtekinn í ágúst 2013 þegar hann var að mynda átök milli sérsveita hersins og stuðningsmanna Mohamed Morsi, fyrrverandi forseta landsins sem var steypt af stóli. Átökin breyttust fljótt í blóðbað þar sem hundruð mótmælenda voru drepnir. 

Verjandi ljósmyndarans segir að hann hafi verið látinn laus klukkan 6 í morgun á Al-Haram-lögreglustöðinni og sé kominn til síns heima. Zeid var einn þeirra 739 sem voru dæmdir á sama tíma í tengslum við átökin en flestir þeirra voru ákærðir fyrir að hafa drepið lögreglumenn og unnið skemmdarverk. Réttarhöldin voru með þeim fjölmennustu frá því uppreisnin hófst í Egyptalandi árið 2011 þegar Hosni Mubarak var steypt af stóli sem forseta landsins.

Í september staðfesti áfrýjunardómstóll dauðadóm yfir 75 þeirra og eins fimm ára dóm yfir Shawkan. Á þeim tíma hafði hann afplánað dóminn að fullu en var samt ekki látinn laus fyrr en í dag. 

Shawkan var sakaður um morð og aðild að hryðjuverkasamtökum og átti yfir höfði sér dauðarefsingu. Fjölmörg mannréttindasamtök gagnrýndu ákæruna harðlega og sagði Amnesty International á sínum tíma að hann hafi verið dæmdur fyrir það eitt að sinna starfi sínu. 

Auk hans voru 214 aðrir fangar látnir lausir í morgun en þeir höfðu allir fengið fimm ára dóm og hefðu einnig átt að ganga lausir frá því í september.

Mahmoud Abu zeid ásamt móður sinni í morgun.
Mahmoud Abu zeid ásamt móður sinni í morgun. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert